Velferðarstefna Samfylkingarinnar hvílir á félagslegu réttlæti og jöfnuði.

Við viljum jafna lífskjör og tryggja öllum tækifæri til að lifa með reisn.

Samfylkingin vill samfélag umburðarlyndis og samkenndar.

Jöfnuður og góð velferðarþjónusta fyrir alla eru grunnurinn að réttlátu samfélagi sem skapar öryggi og efnahagslegan stöðugleika. Með því að tryggja öllum aðgang að heilbrigðis- þjónustu, menntun og félagsþjónustu, óháð efnahag og búsetu, dregur það úr áhrifum stéttaskiptingar og veitir fleirum tækifæri til fullrar þátttöku í samfélaginu. Velferðarkerfið byggir á réttlátri skattheimtu og ábyrgri hagstjórn.

Ísland - land þar sem er gott að eldast

Gert er ráð fyrir að á næstu 25 árum muni hlutfall Íslendinga 67 ára og eldri hækka um helming, úr 12,1% í 18,7%, og fjöldi þeirra nærri tvöfaldast (úr 40.800 í 79.500). Þeir eru vel á sig komnir, lifa lengur og hafa fjölbreyttari starfsreynslu og menntun en nokkru sinni áður. Þessi hópur vill hafa sem mest áhrif á eigin aðstæður. Hafa val eins lengi og kostur er um atvinnuþátttöku, viðbótarmenntun, hreyfingu og innihaldsríkar tómstundir.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

  • Boðið verði upp á sveigjanleg starfslok og störf fyrir eldri borgara.
  • Óskertur ellilífeyrir almannatrygginga verði aldrei lægri en lágmarkslaun.
  • Dregið verði verulega úr tekjutengingu lífeyrisgreiðslna almannatrygginga.
  • Boðnir verði nýjir valkostir í húsnæðismálum eldra fólks., þ.e. litlar ódýrar íbúðir til leigu eða kaups.
  • Heimahjúkrun og endurhæfing aldraðra verði efld til muna og samþætt til að auka val, bæta gæði og draga úr þörfum fyrir hjúkrunarrými.
  • Byggja ný hjúkrunarheimili og vinna að endurbótum til að mæta brýnni þörf.
  • Afnema vasapeningafyrirkomulagið á hjúkrunarheimilum.
  • Áfram verði unnið að styrkingu íslenska lífeyriskerfisins sem byggir á sjóðssöfnun í samtryggingarsjóði, gegnumstreymi almannatrygginga og séreignarsparnaði. Lífeyrissjóðirnir standa nú þegar undir stærstum hluta eftirlaunagreiðslna (2016: 63%) og hlutur þeirra mun vaxa enn á næstu árum. Almannatryggingar eiga samt áfram að gegna mikilvægu hlutverki til þess að tryggja afkomu þeirra sem af ýmsum aðstæðum eiga lítil önnur lífeyrisréttindi.