Velferðarstefna Samfylkingarinnar hvílir á félagslegu réttlæti og jöfnuði.

Við viljum jafna lífskjör og tryggja öllum tækifæri til að lifa með reisn.

Samfylkingin vill samfélag umburðarlyndis og samkenndar.

Jöfnuður og góð velferðarþjónusta fyrir alla eru grunnurinn að réttlátu samfélagi sem skapar öryggi og efnahagslegan stöðugleika. Með því að tryggja öllum aðgang að heilbrigðis- þjónustu, menntun og félagsþjónustu, óháð efnahag og búsetu, dregur það úr áhrifum stéttaskiptingar og veitir fleirum tækifæri til fullrar þátttöku í samfélaginu. Velferðarkerfið byggir á réttlátri skattheimtu og ábyrgri hagstjórn.

Öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum óháð efnahag

Öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum, óháð efnahag eða félagslegri stöðu. Húsnæðismál hafa alla tíð verið eitt af meginverkefnum jafnaðarmanna þar sem húsnæðisöryggi óháð efnahag eða félagslegri stöðu er forsenda jafnra tækifæra og almennrar velferðar. Ráðast þarf í kraftmiklar aðgerðir strax þar sem ástand á húsnæðismarkaði er alvarlegt og bitnar harkalega á þeim sem síst skyldi. Ríkisvaldið hefur ekki gert nóg til þess að bregðast við þessum vanda og þarf að vinna að honum í samstarfi við sveitarfélögin. Fylgja skal hugmyndafræði algildar hönnunar við uppbyggingu á öllu nýju húsnæði.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

 • Hækka húsnæðisbætur til leigjenda.
 • Koma á einu kerfi húsnæðisbóta. Í dag fá leigjendur húsnæðisstuðning í formi húsnæðisbóta en húseigendur í formi vaxtabóta. Nýtt kerfi þarf að taka tillit til fjölda á heimili og vera aðgengilegt og fyrirsjáanlegt.
 • Ríkið tryggi að sú uppbygging sem er nauðsynleg á húsnæðismarkaði nýtist tekjulágu og eignalitlu fólki.
 • Halda áfram uppbyggingu á húsnæðis samvinnufélögum og leigufélögum í samvinnu ríkis, sveita- og stéttafélaga sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða. Ríkið skoði leiðir til þess að fjármagna þau á hagkvæman hátt.
 • Ríkið og sveitarfélög komi saman að fjölgun á félagslegum íbúðum í öllum sveitarfélögum, einkum í þeim sveitarfélögum sem ekki hafa sinnt málaflokknum.
 • Fjölga búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk sem henti þörfum þess og í samræmi við óskir þeirra, sbr. samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
 • Auðvelda sveitarfélögum að fjölga félagslegum íbúðum með því að breyta reglum um skuldaþak sveitarfélaga svo að skuldir vegna íbúðakaupa teljist ekki til almennra skulda. Einnig þarf að heimila ríkinu að niðurgreiða beint lántöku sveitarfélaga til kaupa eða byggingar á félagslegum íbúðum.
 • Auka framboð á leiguíbúðum með því að gera tekjur einstaklinga vegna útleigu á einni íbúð í langtímaleigu skattfrjálsar. Þannig verði stuðlað að því að íbúðir verði frekarleigðar út til búsetu en til ferðamanna og haldið aftur af hækkun á leiguverði. Horft verði til aðferða nágranna okkar á Norðurlöndunum í þessum málum.
 • Styðja þurfi sérstaklega við leigjendur með lágar tekjur og ungt fólk við kaup á húsnæði eða búseturétti. Þróa þarf kerfi viðbótarlána með ríkisstuðningi til að gera ungu fólki kleift að fjármagna kaup eða fyrirframgreiða vaxtabætur nokkurra ára við kaup á íbúð.
 • Hraða uppbyggingu og endurbótum hjúkrunarheimila um allt land og að rekstur þeirra verði full fjármagnaður til að mæta brýnni þörf.
 • Eldri borgurum verði gert kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði.
 • Unnið verði að því að fjölga millistigs-úrræðum og skýrður verði munur á íbúðum fyrir eldri borgara eftir þjónustustigi.
 • Húsnæði-fyrst stefnu sem úrræði fyrir heimilislausa, þá sem glíma við fíknivanda.