Velferðarstefna Samfylkingarinnar hvílir á félagslegu réttlæti og jöfnuði.

Við viljum jafna lífskjör og tryggja öllum tækifæri til að lifa með reisn.

Samfylkingin vill samfélag umburðarlyndis og samkenndar.

Jöfnuður og góð velferðarþjónusta fyrir alla eru grunnurinn að réttlátu samfélagi sem skapar öryggi og efnahagslegan stöðugleika. Með því að tryggja öllum aðgang að heilbrigðis- þjónustu, menntun og félagsþjónustu, óháð efnahag og búsetu, dregur það úr áhrifum stéttaskiptingar og veitir fleirum tækifæri til fullrar þátttöku í samfélaginu. Velferðarkerfið byggir á réttlátri skattheimtu og ábyrgri hagstjórn.

Bætum kjör og aðstæður öryrkja. Samfylkingin leggur áherslu á öruggt og traust lífeyriskerfi sem tryggi öllum viðunandi lífsviðurværi óháð aldri.

Samfylkingin vill að fólk hafi jöfn tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu á eigin forsendum og fái stuðning og tækifæri í samræmi við þarfir sínar. Stuðla þarf að meiri samstarfi milli mismunandi þjónustuþátta, skóla, félags- og heilbrigðisþjónustu.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

  • Almannatryggingakerfið tryggi mannsæmandi lífeyri í samræmi við lágmarkslaun og tryggi þannig þeim sem ekki hafa haft möguleika á að ávinna sér lífeyri vegna lágra launa og/ eða skertrar atvinnuþáttöku
  • Við örorkumat verði horft til möguleika og getu fólks en ekki til sjúkdómsgreiningar og færniskerðingar, samhliða því að tryggð verði atvinnuúrræði við hæfi fyrir þá þau sem metin eru með takmarkaða starfsgetu.
  • Tryggja að öryrkjar hafi tækifæri til tómstundaiðju og að iðka líkamsrækt.
  • Ljúka nú þegar heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu þar sem m.a. krónu á móti krónu skerðingar verði afnumdar.
  • Notendastýrð persónuleg þjónusta (NPA) verði raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk um allt land.
  • Efla túlkaþjónustu til að tryggja öllum virka þátttöku í samfélaginu.
  • Sett verði á laggirnar samræmd ráðgjafamiðstöð í samstarfi við sveitarfélög og Tryggingastofnun sem veitir fólki upplýsingar um réttindi, valmöguleika, þjónustu og kostnað hjá lífeyrissjóðum, sjúkrasjóðum, almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum eða sveitarfélögum. Þangað geti allir notendur velferðarþjónustu leitað. Gætt verði samræmis á milli samstarfsaðila og greiðenda.
  • Virkja notendur til þátttöku í að skipuleggja og þróa þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda og meta hana. Slíkt á við í heilbrigðisþjónustu, forvörnum og allri félagslegri þjónustu.
  • Tryggja öflugt eftirlit til að gæði velferðarþjónustunnar séu eins og best verði á kosið.