Mannréttindi

Samfylkingin leggur áherslu á að Ísland vinni að mannréttindamálum á alþjóðlegum vettvangi sem málsvari mannúðar, jafnréttis og lýðræðis.

Ísland á að beita rödd sinni gegn hvers kyns mannréttindabrotum og til stuðnings réttindabaráttu minnihlutahópa, til dæmis vegna kynferðis, kynhneigðar, kynþáttar, skoðana eða trúar.

Ísland á að vera í forystu í alþjóðlegri baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks.

Lýðræði og vald

Valddreifing og lýðræðisumbætur

Samfylkingin berst fyrir valddreifingu og lýðræðisumbótum. Mörg slík baráttumál hafa nú þegar náð í höfn en svo lýðræði fái dafnað til lengdar þarf að standa dyggan vörð um það sem áunnist hefur og um leið huga stöðugt að umbótum.

Sjálfstæði dómstóla

Það er mikilvægt að stjórnvöld virði og standi vörð um sjálfstæði dómstóla og ákæruvalds. Að staðinn sé vörður um faglegar ráðningar í embætti og opinber störf. Að stuðlað sé að vönduðum vinnubrögðum og góðu siðferði í stjórnsýslu.

Að eftirlitsstofnunum sé gert kleift að sinna lögbundnu hlutverki sínu og fái fjárframlög í samræmi við það og að lokið verði endurskoðun lagareglna um ráðherraábyrgð og landsdóm og þau færð til nútímahorfs.

Öflugt ríkisútvarp

Útvarp í almannaþágu á að einkennast af sjálfstæði, frumkvæði, gæðum, hlutlægni og ábyrgð. Samfylkingin leggur áherslu á að stjórnvöld reki öflugt Ríkisútvarp sem gegnir mikilsverðu menningar- og lýðræðishlutverki.

Samfylkingin leggur áherslu á hlutlæga umfjöllun um fréttir og samfélagsmál, öflugri innlendri dagskrárgerð og aukið samstarfi við sjálfstætt starfandi listamenn, fagfélög og framleiðendur. Að aðgengi almennings að safnaefni Ríkisútvarpsins verði betra, til dæmis með rafrænni yfirfærslu dagskrárefnis til miðlunar á netinu. Að sérstök rækt verði lögð við þátt íslenskar tungu og vandaðs efnis fyrir börn og unglinga. Endurvekja á Menningarsjóður útvarpsstöðva sem veiti styrki með faglegum hætti til menningarverkefna og heimildarþáttagerðar í útvarps- og sjónvarpstöðvum. Styrkir skulu einnig ná til netmiðla.

Til að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar þarf að fjármagna hana með föstum tekjustofni, útvarpsgjaldi eða afnotagjaldi sem rennur óskipt til hennar, fylgir verðlagsþróun og er ákveðið til nokkurra ára í senn.

 

Ný stjórnarskrá

Ný stjórnarskrá

Samfylkingin vill breyta stjórnarskránni á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs sem meirihluti studdi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ljúka skal ferlinu þar sem frá var horfið vorið 2013 og nýja stjórnarskráin lögð fyrir Alþingi Íslendinga til samþykktar.

Við höfum lagt á það áherslur að ný stjórnarskrá tryggi eign almennings á auðlindum og sjálfbæra nýtingu þeirra. Þá er aðgreining valdþátta, ekki síst löggjafarvalds og framkvæmdarvalds mikilvæg.

Raunverulegt þingræði og jafnt vægi atkvæða

Við viljum raunverulegt þingræði og jafnt vægi atkvæða allra kjósenda. Stjórnarskrá skal leggja áherslu á kvenfrelsi og fyllstu mannréttindi þar með talin efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Í nýrri stjórnarskrá skulu vera skýr ákvæði um framsal valds vegna alþjóðasamninga auk ákvæða um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Lækkun kosningaaldurs

Lækkum kosningaaldur niður í 16 ára

Hafin verði vinna sem miði að því að lækka kosningaaldur í 16 ár en þó þannig að aldurstakmark kjörgengis (18 ár) haldist óbreytt.

Eflum lýðræðisvitun barna og ungmenna

Sett verði af stað átak innan menntakerfisins um eflingu lýðræðisvitundar barna og ungmenna allt frá leikskólaaldri í víðtækri samvinnu stjórnvalda, menntastofnana og félagasamtaka.  Samfylkingin styður að æskulýðssamtök, skólar og yfirvöld taki höndum saman um að halda skuggakosningar í skólum samhliða kosningum.