Nanna Hermannsdóttir

Heilt og sælt jafnaðarfólk,

Nanna heiti ég og hef ákveðið að gefa kost á mér í verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar.  

Ég er 26 ára hagfræðingur og í meistaranámi um norræn velferðarkerfi. Ég hef verið virk í Samfylkingunni í nokkur ár og sat sem fræðslu- og málefnastýra UJ 2018-2020. Ég hef einnig tekið virkan þátt í hagsmunabaráttu stúdenta bæði innan Röskvu, Stúdentaráðs og sem fulltrúi nemenda í stjórnum og nefndum Háskóla Íslands.

Síðastliðin tvö sumur hef ég verið svo lukkuleg að starfa hjá Alþýðusambandi Íslands. Núna í sumar vann ég samantekt fyrir hagdeildina um þær breytingar sem við munum sjá á vinnumarkaði á næstu árum vegna fjórðu iðnbyltingarinnar með áherslu á hvaða hópar eru viðkvæmastir fyrir breytingunum.

Í fyrra vann ég skýrslu fyrir ASÍ um stöðu erlends starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði. Síðan þá hef ég haldið fyrirlestra, skrifað greinar og lagt mitt af mörkum til þess að vekja athygli á mikilvægi þess að samfélagið bregðist við því óréttlæti sem erlent starfsfólk mætir. Það á ekki eingöngu við um launaþjófnað sem hefur verið mikið til umræðu að undanförnu, heldur einnig aðgengi að vinnumarkaðnum og að staða þeirra innan íslensks samfélags sé tryggð.

Verkalýðsmálin eru órjúfanleg frá jafnaðarstefnunni og eru því mikilvægur þáttur í starfi Samfylkingarinnar. Ég vil beita mínum kröftum til þess að berjast fyrir þessum áherslum innan Samfylkingarinnar og tel verkalýðsmálaráð besta vettvanginn til þess. 

Ég vona að ég hljóti ykkar stuðning og “sé” ykkur á landsfundi um helgina!