Oddný G. Harðardóttir í eldhúsdagsumræðum Alþingis

Eldhúsdagsumræður Alþingis fóru fram 29. maí. Oddný G. Harðardóttir tók til máls í fyrstu umferð.

Herra forseti góðir landsmenn.

„Við – kynslóðin sem nú lifir og gengur á jörðinni – við erum síðasta kynslóðin sem getur gert eitthvað vegna þeirrar ógnar sem að okkur steðjar. Og þið stjórnmálamenn getið gert það sem gera þarf.“

Þetta sagði Benedikt Erlingsson leikari og leikstjóri þegar hann tók við verðlaunum Norðurlandaráðs fyrir kvikmyndina Kona fer í stríð. Hann hvatti um leið stjórnmálamenn um allan heim til að vera hugrakkari og gefa  svona kosningaloforð:

„Kjósið mig og ég mun sjá til þess að þið fáið minna af næstum öllu. Minna dót, minna af kjöti, færri ferðalög.“

Og til að fá kjósendur til að bíta á agnið ættu stjórnmálamenn að lofa í staðinn meiri menningu og skemmtun, heilbrigðari lífstíl, lengra lífi. Meira af samveru, ljóðum og ást. Tónlist og bókmenntum. Þessi hvatningarorð Benedikts eru ágæt.

Hugrakkir stjórnmálamenn verða að leggja grunn að hagvexti sem er kolefnislaus, styðja umhverfisvæna vinnu sem stoð undir velferðina, vegna þess að hlýnun jarðar er ógn sem verður stöðugt áþreifanlegri og ágengari. Á norðurslóðum eru áhrifin þrisvar sinnum meiri en annars staðar og jöklar bráðna með skelfilegum afleiðingum. Hamfarahlýnun spyr ekki um landamæri og engin þjóð getur lýst yfir hlutleysi í stríðinu við hana.

Stærstu vandamál heimsins verða aðeins leyst með aukinni alþjóðlegri samvinnu, hvort sem þau snúa að baráttunni gegn fátækt, ójöfnuði eða loftslagsvá.

Það þarf kjarkmikla stjórnmálamenn til að leiða róttækar aðgerðir.

Máttleysisleg loftslagsáætlun ríkisstjórnar Íslands fær algjöra falleinkunn.

Þess vegna lagði Samfylkingin fram þingsályktunartillögu þar sem ríkisstjórninni er falið að útbúa grænan samfélagssáttmála sem taki til allra sviða þjóðlífsins. Meginþráður sáttmálans á að verða sjálfbærni og að Ísland verði grænt land, með grænt hagkerfi.

Unga fólkið krefst þess að við stjórnmálamenn leiðum breytingar sem virka. Þeirra er framtíðin – en aðeins ef við stöndum í lappirnar gegn stundargróða og sérhagsmunum og tökum stór græn skref fyrir börnin okkar og barnabörn.

Það er ekki aðeins hamfarahlýnun sem er ógn við framtíð barna á Íslandi. Nýjar tölur frá Rannsókn og greiningu benda til þess að fleiri en 13 þúsund börn verði fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn. Sum hver daglega. Afleiðingar þess að verða fyrir ofbeldi sem barn eru margfaldar á við fullorðna.

Ofbeldi gegn börnum fer oftast leynt og stjórnvöld taka þátt í feluleiknum því fullnægjandi eftirlit er ekki til staðar. Það er ekki nóg að skipta nafni húsnæðisráðherra út fyrir barnamálaráðherra eins og gert var á dögunum. Raunverulegra aðgerða er þörf.

Eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar á þessu þingi var aðgerðaráætlun til næstu fjögurra ára til að styrkja stöðu íslenskra barna. Sérstaklega voru tilgreindar aðgerðir til að vernda börn og ungmenni fyrir vanrækslu, heimilisofbeldi og kynferðisbrotum. Alþingi samþykkti að vísa tillögunni til ríkisstjórnar til frekari vinnslu, sem er vonandi eitthvað skárri niðurstaða en að láta hana sofna í nefnd. Aðgerðirnar eru allar framkvæmanlegar og snúa að barnavernd, lögreglu og heilsugæslu, virku samstarfi þar á milli og greiðari leiðum fyrir almenning og skóla til að tilkynna grun um ofbeldi gegn barni.

Því miður gætir sinnuleysis stjórnvalda um málefni barna víðar því skortur er á skýrri leiðsögn, skilvirku skipulagi og heilstæðri stefnu í geðheilbrigðismálum barna og unglinga sem orðið hefur til þess að mörg þeirra eru án skýrra úrræða og illvirðráðanlegir fylgikvillar ná að myndast. Allt of mörg börn bíða greiningar og hjálpar.

Og það eru fleiri látnir bíða. Verkalýðsfélög náðu með kröfum sínum fram kauphækkunum en einnig loforðum stjórnvalda um skattkerfisbreytingu, hærri barnabótum og lausnum í húsnæðismálum, í svokölluðum lífskjarasamningum, sem reyndar er allt of stórt orð fyrir þá samninga.

Loforðin eru flest óútfærð en skilaboðin til aldraðra og öryrkja eru skýr. Þau skulu bíða til áramóta eftir hærri greiðslum. Í þeirra hópi er fátækasta fólkið á Íslandi sem þarf að láta sér nægja rúmar 200 þúsund krónur á mánuði. Og ég minni á að öll önnur norræn ríki gera meira en ríkisstjórn Íslands til að auka jöfnuð. Samfylkingin hefur lagt til að lífeyrir hækki í takti við lágmarkslaun og skorar á stjórnvöld um leið að draga úr tekjuskerðingum.

Þessa dagana bíða mörg þingmál afgreiðslu og umræður síðustu daga og nætur hafa sýnt mjög greinilega nauðsyn á auðlindaákvæði í stjórnarskrá, sem meiri hluti þjóðarinnar hefur lengi kallað eftir.

Og á meðal þingmála sem bíða er mál Samfylkingarinnar um að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur. Við munum ekki fara í sumarfrí án þeirrar réttarbótar fyrir fatlaða Íslendinga.

Við bíðum enn á síðustu dögum þingsins eftir nýrri fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og  breyttri áætlun í ríkisfjármálum þar sem brugðist er við verri hagspá, samdrætti í ferðaþjónustu og loðnubresti.

Ekki er við þingið að sakast að fjármálaráðherrann hefur ekki kynnt nýja stefnu heldur vandræðagang ríkisstjórnarinnar sem fékk stjórnarmeirihlutann til að samþykkja algjörlega óraunhæfa fjármálastefnu fyrir rúmu ári síðan. Samfylkingin gagnrýndi þá stefnu harðlega en ríkisstjórnin hlustaði ekki á varnaðarorðin. En látum það nú vera þótt stjórnarliðar fari ekki að ráðum okkar jafnaðarmanna. Þau hunsuðu líka gagnrýni fjármálaráðs sem benti þeim á með skýrum orðum, að með stefnunni væri ríkisstjórnin að sníða sér spennitreyju í ríkisfjármálum og þau yrðu annaðhvort að skera niður útgjöld eða hækka skatta í niðursveiflunni.

Ríkisstjórn – sem hvorki getur komið sér saman um niðurskurð eða tekjuöflun – grípur til þess ráðs að leggja fram nýja stefnu og fer um leið gegn lögum um opinber fjármál.

Óábyrg stefna í ríkisfjármálum bitnar alltaf á almenningi sem ber kostnaðinn af gjörðum stjórnmálamanna sem eru ekki færir um að horfa út fyrir kjörtímabilið, en marka stefnu sem heldur ekki vatni og er óframkvæmanleg nokkrum mánuðum eftir samþykkt hennar.

Forsætisráðherra kallaði nýlega eftir því í erlendu riti, að framsæknar hreyfingar og vinstriflokkar í Evrópu sameinist og myndi fjölþjóðlega fylkingu um róttækar lausnir. Að á tímum loftslagsbreytinga og efnahagslegs ójafnaðar þyrfti að marka djarfa, framsýna og sameinandi stefnu með áherslu á félagslegt réttlæti, kynjajafnrétti, grænt hagkerfi og alþjóðlegar kerfisbreytingar.

Ég tek undir með ráðherranum en skilaboðin hafa holan hljóm þegar þau koma frá stjórnmálamanni sem segir eitt í útlöndum en gerir annað á heimavelli. Sem leiðir ríkisstjórn gömlu valda og íhaldsflokkanna og styður fjármála- og efnahagsráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Ríkisstjórn sem vill hvorki leggja á sanngjörn auðlindagjöld né láta auðmenn greiða sinn réttláta skerf til velferðarinnar. Ríkisstjórn stöðnunar og óréttlætis.

Góðar stundir.