Ræða Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar

Flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar, 6. október 2017

Til eru dýr sem eru gríðarlega litrík og falleg.  Þegar þau ber fyrir augu gleymist allt annað og  þau fanga alla athygli um stund. Þau geta samt sum ekki vænst þess að lifa nema í örfáar klukkustundir.

Önnur eru lífseigari eins og Þessi fallega marglytta, Turritopsis dohrnii.  Hún býr yfir þeim einstaka hæfileika að hafa sigrast á dauðanum.  Þegar líður að lokum, skríður hún inn í kjarna sinn og endurfæðist, nákvæmlega eins.  Mér finnst þetta í sjálfu sér ekki sérstaklega eftirsóknarverður kostur.

Mannskepnan er líka býsna merkileg.  Hún hefur náð yfirburðastöðu í lífríkinu, ekki síst vegna einstaks hæfileika síns að geta numið og uppgötvað og miðlað þekkingu milli kynslóða.  Þá getur hún hugsað skapandi og abstrakt. En maðurinn er líka breiskur og sést ekki alltaf fyrir og hefur kannski orðið fórnarlömb eigin velgengni.

Stjórnmálahreyfingar eru líka margs konar. Sumar spretta upp vegna einstakra dægurmála,  stemmningar í samfélaginu eða jafnvel persónulegs ágreinings. Slíkir flokkar skjóta illa rótum og geta ekki vænst langra lífdaga.

Aðrir endast lengur og verða kannski eilífir, en neita að horfast í augu við eigin mistök og takast á við óheilbrigðan kúltúr.

Svo eru til þeir sem byggja á sterkum rótum og djúpum tilgangi. Þeir verða gjarnan fjöldahreyfingar með sterka grasrót og öfluga innviði. Slíkir flokkar eiga þó sína góðu og slæmu daga eins og gengur. Þegar illa árar nægir þeim ekki að draga sig inn í skel tímabundið og birtast aftur óbreyttir. Þeir horfa í eigin barm, skerpa á stefnunni, aðlaga hana að samtímanum og endurnýja áhöfnina.

Við mætum nú til leiks með mikið breyttan hóp í framlínunni, sem er fullur ákefðar að bera fram stefnu sósíaldemókrata og bjóða upp á lausnir sem hafa gert Norðurlöndin að kraftmestu og manneskjulegustu samfélögum í sögu mannkynsins.

Rætur okkar hreyfingar má rekja allt aftur til iðnbyltingarinnar á 18.öld. Gufuvélin og önnur tækni kom fram á sjónarsviðið og leysti vöðvaflið af hólmi.  Alþýðan flyktist úr sveitum og borgir stækkuðu gríðarlega.  Til urðu algjörlega nýjar og óþekktar aðstæður.

Bregðast þurfti við grundvallarhlutum s.s. húsnæðisþörf en einnig urðu sýnilegri ýmis félagsleg vandamál í svo fjölmennu sambýli.

En þetta efldi  samtakamátt fólks og stéttarvitund, sem leiddu af sér stærri breytingar en nokkru sinni áður í sögu mannkyns; aukin borgaraleg réttindi, almenna barnafræðslu, bann við barnaþrælkun, kosningarrétt kvenna svo eitthvað sé nefnt.

Hér á Íslandi gerðust hlutirnir örlítið seinna og kannski með heldur ljóðrænni hætti:

Sjómaður setti sig niður við sjávarsíðuna. Hann valdi stað með góðu bátalægi, þar sem stutt var á miðin. Áhöfn réð sig á bátinn og lítil þyrping húsa reis, ásamt kirkju. Vegna þess að maður er manns gaman stofnuðu íbúarnir kvenfélag og kór. Börnum fjölgaði og barnaskóli var settur á stofn. Þörf varð fyrir smið, sauma- og yfirsetukonu og kaupmann.

Þarna var líka sérvitur stúlka sem málaði litlar myndir á masonitplötur með lélegum litum og nokkrir sem voru ekki bjargálna. Þeim var hjálpað og fundið verkefni við hæfi. Þorpið reis við holótta götu sem endaði í torgi við kirkjuna. Þar safnaðist fólkið saman á tyllidögum. Þorpið var orðið samfélag.

Í þessu litla og dæmigerða íslenska þorpi birtist á sama tíma frumkvöðlakraftur og áræðni einstaklingsins en um leið kannski það fallegasta í mannsálinni; samkennd og samhjálp.

Saga Samfylkingarinnar og forvera hennar er samofin réttindabaráttu alþýðunnar og margir af stærstu áfangasigrunum í baráttu fyrir betri kjörum hafa unnist fyrir tilstilli okkar. Vökulögin, lög um verkamannabústaði, almannatryggingar, jöfn laun karla og kvenna og Lánasjóður námsmanna eru dæmi um réttarbætur þar sem þeir lögðu styrkastar hendur á plóginn.  Þá tryggðu jafnaðarmenn ákvæði í fiskveiðistjórnunarlög, um að fiskistofnarnir séu sameign þjóðarinnar. Loks er ótalið framlag þeirra  í þágu viðskiptafrelsis og opnari samskipta við önnur ríki.  Í dag búa  þúsundir barna enn við fátækt, launamunur eykst og sífellt stærri hluti auðsins safnast á fárra hendur.

Við höfum því enn mikilvæg verk að vinna. Og hlutverk okkar skal líka verða stórt í að bæta íslenskt samfélag framtíðarinnar.

Hvernig má það það  t.d. vera að í þessu  auðuga landi, ríku af auðlindum, með hátt menntunarstig skuli vinnandi, harðduglegar fjölskyldur ekki  ná endum saman. Og við minnsta áfall geta þær lent í stórkostlegum vandræðum. Fjölskyldur , þar sem báðir foreldrar vinna úti, þurfa jafnvel að velja milli þess að greiða reikninga, veita börnum sínum tómstundir eða sækja sér læknisþjónustu.

Og hvað er að þegar þúsundir barna í þessu vel stæða samfélagi líða skort?

Þetta er óboðlegt.  Kosningar nú  gefa okkur kærkomið tækifæri til þess að auka félagslegan stöðugleika  og færa okkur nær norræna módelinu sem svo oft er litið til.

Forsætisráðherra er tíðrætt um jafnvægi og stöðugleika og guð má vita hvað hann á við með því eða af hverju honum dettur í hug að þau verði á einhvern hátt tryggð með viðveru hans.

Við göngum nú til kosninga, öðru sinni á einu ári eftir að tvær ríkisstjórnir, með hann innanborðs, hrökklast frá völdum, rúnar trausti, að kröfu almennings.

Í fyrra skiptið vegna spillingar en í seinna skiptið vegna leyndarhyggju; þar sem reynt var að fela upplýsingar um ofbeldismál gegn börnum.  Í fyrra leyndi forsætisráðherra skýrslu um panamaskjölin; ástæðu kosninganna.

Í þessari kosningabaráttu verður að ræða um gildi og siðferði samfélagsins. Þótt lög og reglur séu mikilvægar mun ekkert samfélag lifa, ef þau eru hinn eini marktæki mælikvarði.  Þrátt fyrir allt byggir samfélagssáttin fyrst og fremst á hinum óskráðu viðmiðum og siðviti manna.

Í dag komust íslensk stjórnmál enn á ný  í kastljós erlendra fjölmiðla vegna  skorts á siðferði og heiðarleika forsætisráðherra þjóðarinnar.

Traust á milli íslenskra stjórnmálamanna og almennings verður ekki endurheimt nema þessi mál séu rædd ýtarlega og gerð upp.  Auk þess þarf almenningur að fá meiri aðkomu að mikilvægum ákvörðunum.

Viljum við t.d. að stjórnmálamennirnir skrifi samfélagssáttmálann einir?  Eiga þeir að setja leikreglurnar sem þeir starfa eftir einir?  Auðvitað ekki . Nú þegar öldur hrunsáranna eru farnar að lægja, er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að þjóðin ráði för í stjórnarskrármálinu.

Evrópumálin er annað mál sem klýfur þjóðina í herðar niður. Þjóðaratkvæðagreiðsla er besta leiðin til að útkljá það mál. ´Viljum við taka upp evru og létta þungri vaxtabyrði af heimilinum eða viljum við það ekki?  Á þessu hafa margir skoðun; leitum til þjóðarinnar.

 

Mikilvægt verkefni stjórnmálanna í dag er að bæta kjörin og auka jöfnuð.

Við þurfum að tryggja að almenningur búi við öryggi frá vöggu til grafar og minnstu áföll setji fólk ekki í stórkostlegan vanda.  Sérstaklega þarf að huga að barnafjölskyldum.  Fátt er börnum jafn mikilvægt og að búa við öryggi og stöðugleika. Nýjar tölur frá verkalýðshreyfingunni og Hagstofunni sýna að stöðugt er þrengt að venjulegu fólki á meðan skattbyrði er létt af breiðustu bökunum.

Samfylkingin vill því hlífa lág- og millitekjuhópum sérstaklega við frekari álögum og þvert á móti grípa til aðgerða til að bæta stöðu þessa hóps.

Unga fólkið mun draga vagninn í framtíðinni og við viljum nesta það betur út í þann leiðangur.

Við viljum tvöfalda barnabætur, hjálpa ungu fjölskyldufólki og verðlauna fyrir þá dýrmætu fjárfestingu sem börnin okkar eru.

Við munum auka vaxta og húsnæðisbætur.  Við ætlum að tryggja að hér verði  byggðar nokkur þúsund íbúðir í almennum leigufélögum. Þær íbúðir eiga að verða raunhæfur valkostur fyrir lægri tekjuhópa.

Við viljum að öldruðum sé sýnd sú virðing sem þeir eiga skilið fyrir að hafa fært okkur það samfélag sem við búum við í dag, þrátt fyrir allt.  Við viljum að öryrkjar búi við betri aðstæður.  Við ætlum að auka lífsgæði þeirra, bæta kjörin og draga úr tekjuskerðingum. Þessi ásetningur okkar er undirstrikaður af framjóðendum okkar sem hafa látið sig þessi mál varða um langan tíma. Ég nefni Ellert B. Schram, Jóhönnu Sigurðardóttur, Ernu Indriðadóttur og að ógleymdum Björgvini Guðmundssyni.

86.000 Íslendingar skrifuðu undir áskorun um að endurreisa heilbrigðiskerfið. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að mæta þessum vilja þjóðarinnar. Í fjárlögum næsta árs er þjónusta við sjúklinga á spítölum skorin niður en útgjöld aukast vegna þjónustu í einkarekstri. Samfylkingin hafnar einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og leggur áherslu á að styrkja heilbrigðisþjónustu í opinberri eigu. Við ætlum að svara kalli þjóðarinnar.

Menntun er lykillinn að aukinni verðmætasköpun og betri lífskjörum. Við stöndum í anddyri tæknibyltingar sem mun hafa gríðarlega og ófyrirséðar breytingar á samfélagið.

Vinnumarkaðurinn mun taka stakkaskiptum og menntakerfið þarf að búa nemendur undir þessar breytingar.  Auknar kröfur verða á eiginleika s.s. skapandi hugsun og tæknifærni. Við þurfum að leggja meiri áherslu á skapandi greinar, listir, rannsóknir og nýsköpun til að geta mætt þessum nýja veruleika.

Við erum hálfdrættingar á við Norðurlöndin  þegar kemur að fjármögnun háskólanna, þarna þarf að gera betur. Sama á við um framhaldsskóla landsins. Við þurfum að auka virðingu á kennarastéttinni og bæta aðstæður þeirra. Þeir munu leika lykilhlutverki í þessari nýju framtíð.

Í jöfnu aðgengi að menntun felst líka öflug byggðarstefna. Aukið þekkingarstig og ný tækni gera fólki kleift að stunda vinnu sína hvar sem er í heiminum. Líka á Stöðvarfirði og Bíldudal. Til að fólk vilji og geti búið út um allt land verðum við að bjóða fólki upp á greiðar samgöngur, raforkuöryggi og gott netsamand.

Auðvitað er ekki alltaf augljóst ekki hagsmunir landsbyggðar og höfuðborgar fari  saman. En landsbyggðirnar þurfa á sterkri höfuðborg að halda og höfuðborg á sterkum landsbyggðum.

Góðu vinir, hér er ekki hægt að tala án þess að drepa á málum sem snerta hjörtu jafnaðarmanna og þurfa að fá meira rúm í umræðunni.

Við þurfum að ráðast af alefli gegn kynbundnu ofbeldi og herða róðurinn í átt að jafnrétti kynjanna. Þar skiptir ekki minnstu máli að breyta gildismati og uppeldi barnanna okkar. Við karlar þurfum að umgangast konur af miklu meiri virðingu. Stjórnarslitin voru óþægileg áminning um það.

Að sjálfsögðu er barátta gegn öllu misrétti, allri kúgun samofin baráttu okkar jafnaðarmanna.

Jafnaðarmenn geta heldur ekki lokað augunum fyrir stórum vandamálum sem herja á mannkynið

Við verðum að sýna ábyrgð og stíga miklu ákveðnari skref í baráttu gegn loftlagsógninni;  hvort sem um er að ræða hlýnun jarðar, súrnun sjávar eða aðra þætti. Við þurfum að sjálfsögðu að standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar og gera helst betur.

Annað stórt vandamál er misskipting í heiminum og stríð sem eiga rætur í henni. Milljónir manna eru á flótta. Ekkert siðað samfélag getur lokað augunum fyrir því. Mannúð er þrátt fyrir allt besti mælikvarðinn  á hver við erum. Við þurfum að gera miklu betur í þessum efnum og hugsa sérstaklega um hag barna.

Ágætu félagar, það er ágætt að hafa orð Olof Palme í huga í upphafi þessarar baráttu: Pólitík er vegferð og þú kemst kannski aldrei í mark, en þú nálgast það.  Og umfram allt má aldrei braska með heilbrigði fólks, fæði, húsnæði og menntun.

Ágætu vinir

Köngulóin er merkilegt dýr. Hún kemur t.d. í veg fyrir pestir með því að halda frá okkur ýmsum óæskilegum kvikindum á heimilum okkar. Hún er hagleiksvera og lipur í hreyfingum en ef allir fætur köngulónnar hefðu sjálfstæðan vilja, væri sú merkilega skepna auðvitað útdauð.

Samstarf og samhæfni er lykilþáttur nú þegar við leggjum í mikilvægar kosningar. Ef okkur auðnast að snúa bökum þétt saman, leggjast öll á árar, vera góð hvert við annað og glöð í hjarta er ég viss um að við munum uppskera ríkulega 28. október, þjóðinni til heilla.

Takk fyrir mig og áfram veginn!.