Samfylkingin á Fundi Fólksins

Þingmennirnir okkar Logi Már Einarsson og Oddný G. Harðardóttir ásamt góðu fylgdarliði mættu til leiks á Fund Fólksins sem fór fram í þriðja sinn nú um liðna helgi. Lýðræðishátíðin var í þetta skiptið haldin í menningarhúsinu Hofi á Akureyri.

Samfylkingarfólk var áberandi í dagskránni. Ekki bara vegna okkar eigin viðburða heldur líka vegna þátttöku í viðburðum hjá félagasamtökum og öðrum stjórnmálaflokkum. Heiða B. Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar var á staðnum og tók virkan þátt í umræðum sem og formaður Ungra Jafnaðarmanna, Þórarinn Snorri Sigurgeirsson.

Samfylkingin stóð fyrir tveimur málfundum á Fundi Fólksins. Á fundi um tæknibyltinguna ræddi formaður Samfylkingarinnar Logi Már Einarsson um hverng við getum undirbúið okkur fyrir nýju tæknibyltinguna og séð til þess að með henni fylgi samfélagslegur ávinningur. Ef við gerum ekkert þá er allt eins líklegt að ójöfnuður aukist til muna og almenn velferð minnki.

Þar kom fram að samfélag okkar stendur frammi fyrir gríðarlegri tæknibyltingu sem mun gjörbreyta þjóðfélaginu. Nýja tæknibyltingin mun leiða til aukinnar sjálfvirkni og færri vinnandi hendur verða nauðsynlegar til að vinna verkin. Þessi nýi veruleiki getur bætt lífsgæði okkar með því að færa okkur auknar frístundir og tækifæri til fleiri samverustunda með fjölskyldu og vinum. Hins vegar, sjáum við líka fram á að færri störf og færri skattgreiðendur geti leitt til þess að velferðarkerfið skreppi saman og geti ekki veitt þeim þjónustu, sem þurfa á henni að halda á meðan hagnaður endar allur hjá þeim sem eiga fyrirtækin. Róbert Farestveit hagfræðingur hjá ASÍ og  Guðmundur Haukur Sigurðarson, framkvæmdastjóri Vistorku á Akureyri sátu í pallborði.

Oddný G. Harðardóttir stóð fyrir málfundi um norræna módelið og kynnti þar grunnstoðir þess. Þar talaði hún um hvernig norræn samfélög sem byggja á velferðarhugsjón verkalýðshreyfinga og jafnaðarhugsjón hafa skapað íbúum sínum almenna velferð og lífsgæði sem hvergi finnast annars staðar í heiminum. Norræna módelið byggir á þremur grunnstoðum. Hagstjórn sem felst í aga í útgjöldum, nægum skatttekjum, opnum viðskiptum og eins mörgum á vinnumarkaði og unnt er. Opinberri velferð sem felst í heilbrigði og menntun, almannatryggingnum og eftirlaunum ásamt aðstoð við atvinnuleit af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Skipulögðum vinnumarkaði sem felst í föstum störfum og lærlingsstörfum, sterkum og ábyrgðafullum verkalýðsfélögum sem stuðla að launajafnrétti. Fólk sem býr í samfélögum þar sem jöfnuður ríkir, hafa betri tækifæri til þess að ná árangri í lífinu. Eins og Barack Obama sagði eitt sinn „Heimurinn væri öruggari og farsælli ef fleiri bandamenn væru eins og Norðurlöndin”. Hrannar Björn Arnarsson, framkvæmdastjóri þingflokks jafnaðaramanna í Norðurlandaráði var einnig með framsögu á fundinum og sagði frá samstarfi verkalýðsfélaga og jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndum.

Formaður Ungra Jafnaðarmanna, Þórarinn Snorri Sigurgeirsson tók þátt í pallborði hjá Vinstrihreyfingunni grænu framboði, þar sem rætt var um stöðu ungs fólks í íslensku samfélagi, minnkandi stjórnmálaþátttöku og tekist á um hugmyndir um lækkun kosningaaldurs.

Þessi lýðræðishátíð er komin til að vera. Þarna er tækifæri til að velta upp og ræða nýjar hugmyndir og vinda sem blása í samfélaginu í enn víðara samhengi en gerist í hefðbundnu starfi stjórnmálamanna. Þarna verður líka til samtal á milli fulltrúa félagasamtaka, stjórnmálamanna og hins almenna borgara um hin ýmsu mál.

frettfundurfolksins