Samþykkjum ekki einkarekna sjúkrahúsþjónustu

Þingflokkur Samfylkingarinnar skorar á að heilbrigðisráðherra að samþykkja ekki einkarekna sjúkrahúsþjónustu. Það á að vera forgangsverkefni að styrkja opinbera hluta heilbrigðiskerfisins.

Umsókn um leyfi til að starfrækja sérhæft sjúkrahús í einkarekstri er á borði heilbrigðisráðherra. Samþykkt ráðherrans fæli í sér grundvallarbreytingu á heilbrigðiskerfinu.

Umsóknin snýr að starfsemi sem opinberu spítalarnir eru í fullum færum til að framkvæma og eiga að sinna. Samþykki ráðherra umsóknina fæli það í sér mikið óhagræði, veikari sérfræðiþjónustu og flutning á fjármagni frá fjárþurfa opinberu kerfi í hagnaðardrifinn einkarekstur. Kostnaður mundi aukast vegna lélegri nýtingar á þeirri þjónustu sem hið opinbera þarf að veita, m.a. til að sinna nauðsynlegri bráðaþjónustu.

Þá vekur þingflokkur Samfylkingarinnar athygli á að Bandalag starfsmanna ríkis og bæjar hefur lagst gegn þessum áformum opinberlega. Það hefur forstjóri Landspítalans einnig gert og sagt þau skammsýni og óþarfa kostnaðarauka fyrir skattgreiðendur.

Þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp sem kveður á um að heilbrigðisráðherra þurfi að fá samþykkt Alþingis til að semja um aukin einkarekstur eða einkavæðingu. Það er mikilvægt að þingmenn sameinist um afgreiðslu málsins. Slíkar stefnumarkandi ákvarðanir eiga heima á Alþingi en ekki á bak við luktar dyr.