Öruggt húsnæði fyrir alla

Samfylkingin leggur áherslu á að allir geti búið í öruggu húsnæði á viðráðanlegum kjörum enda er öryggi í húsnæðismálum eitt mikilvægasta velferðarmálið.

 

Húsnæðisöryggi

Húsnæðismál hafa alla tíð verið höfuðverkefni jafnaðarmanna þar sem húsnæðisöryggi óháð efnahag er forsenda jafnra tækifæra og almennrar velferðar. Húsnæðismál eru nú í algeru öngstræti og gríðarlegur vandi steðjar að. Húsnæðisverð er svo hátt að fólk getur ekki keypt sína fyrstu íbúð, á sama tíma og mikill skortur er á leiguíbúðum og leiguverð hátt. Margir geta hvorki keypt né leigt og ungt fólk sér ekki fram á úrlausn á næstu árum.

Alvarlegt ástand á leigumarkaði

Ástandið á leigumarkaði er alvarlegt. Rannsóknir sýna að leigjendur eru líklegri til að vera í fjárhagsvandræðum og börn leigjenda eru líklegri en önnur til að búa við fátækt og skorta efnisleg gæði. Bráðaaðgerðir eru nauðsynlegar vegna þessa ástands. Þær aðgerðir þurfa að auka án tafar framboð á leiguhúsnæði, halda aftur af hækkun leiguverðs og gera fyrstu kaupendum mögulegt að kaupa sína fyrstu íbúð.

Áherslumál Samfylkingarinnar:

 1. Þriggja milljóna króna forskot á fasteignamarkaði fyrir þá sem ekki eiga. Jöfnum leikinn og nýtum fyrirframgreiddar vaxtabætur til að fjármagna útborgun við húsnæðiskaup fyrir þá sem ekki eiga. Meira hér.
 2. Byggja þarf 6000 leiguíbúðir á næsta kjörtímabili .
 3. Hækka húsaleigubætur svo að þær verði sambærilegar þeim stuðningi sem ríkið veitir þeim sem búa í eigin húsnæði í gegnum vaxtabætur.
 4. Auka framboð á leiguíbúðum enn frekar með því að gera skattfrjálsar tekjur einstaklinga vegna útleigu á einni íbúð. Skilyrði verði að leigusamningur sé að lágmarki til 12 mánaða, með forleigurétti leigjanda og leigan má ekki vera hærri en sem nemur vísitölu leiguverðs. Þannig verði stuðlað að því að íbúðir verði frekar leigðar út til búsetu en til ferðamanna og haldið aftur af hækkun á leiguverði.
 5. Þróa kerfi bundinna húsnæðissparnaðarreikninga sem veiti skattaafslátt til fyrstu íbúðakaupa. Mikilvægt er að slíkt kerfi nýtist jafnt námsmönnum og þeim sem eru á vinnumarkaði til húsnæðissparnaðar, hvort heldur til kaupa á á eigin húsnæði eða kaupa á búseturétti.
 6. Bjóða ónýttar lóðir ríksins til að greiða fyrir byggingu minni leiguíbúða.
 7. Endurskoðun á byggingarreglugerð til að greiða fyrir byggingu minni og ódýrari eignar- og leiguíbúða.
 8. Auðvelda sveitarfélögum að fjölga félagslegum íbúðum.

Til þess þarf:

 1. Að breyta reglum um skuldaþak sveitarfélaga svo skuldir vegna íbúðakaupa teljist ekki til almennra skulda, svo þeim verði kleift að kaupa og byggja fleiri félagslegar íbúðir og heimila ríkinu að niðurgreiða beint lántöku sveitarfélaga til kaupa eða byggingar á félagslegum íbúðum, en ekki verði lengur skilyrði að lán séu tekin hjá Íbúðalánasjóði. að rýmka reglur um fjölda íbúða sem ríkið veitir niðurgreiðslu til. Til langs tíma á húsnæðislánakerfið að vera öruggt, fyrirsjáanlegt og tryggja lántakendum fjölbreytt lánaform á hagstæðum kjörum. Verðtrygging og háir vextir eru og verða óhjákvæmilegur fylgifiskur íslensku krónunnar, gagnrýni á verðtryggingu er í raun gagnrýni á íslensku krónuna og efnahagssveiflurnar sem henni fylgja. Með evru geta íslensk heimili vænst langþráðs stöðugleika, lægri vaxta og endaloka verðtryggingar. Auka þarf fjárhagslegt og lagalegt jafnræði milli ólíkra búsetuforma og fjölga valkostum á húsnæðismarkaði. Þannig verður húsnæðisöryggi tryggt án mikilla fjárhagslegra skuldbindinga til langs tíma. Til þess þarf á næstu árum að byggja upp öruggan langtímaleigumarkað og fjölga búseturéttaríbúðum með stefnumótun og fjárhagslegri aðkomu hins opinbera. Horfa ber til þess fordæmis sem Samfylkingin hefur skapað með pólitískri forystu um öfluga uppbyggingu á fjölbreyttum húsnæðiskostum í Reykjavík.
 2. Innleiða þarf húsnæðisbætur sem taka mið af greiðslugetu fólks og aðstæðum. Húsnæðisstuðningur opinberra aðila á ekki að mismuna fólki eftir því hvort það leigir eða býr í eigin húsnæði.
 3. Styðja verður við uppbyggingu á nýju félagslegu húsnæðiskerfi sem kemur til móts við fólk sem ekki ræður við markaðskjör á húsnæði og getur hvorki fest kaup á húsnæði né leigt á almennum leigumarkaði. Þessi hópur býr við mikið óöryggi í húsnæðismálum og ber allt of háan húsnæðiskostnað sem hlutfall af tekjum.
 4. Endurmeta þarf stöðu, hlutverk, áhættutöku og stjórnun Íbúðalánasjóðs. Skapa þarf sátt um starfsemi sjóðsins til framtíðar og gera honum kleift að sinna hlutverki sínu við að veita íbúum á öllu landinu hagstæð húsnæðislán.
 5. Rétta þarf stöðu leigjenda, búseturéttarhafa og lánsveðshafa svo allir sitji við sama borð þegar húsnæðismál eru annarsvegar.