Réttlátt samfélag, bætt lífskjör og aukinn jöfnuð

  • Öruggt húsnæði fyrir alla – minnst 6000 nýjar leiguíbúðir
  • Tvöföldun barnabóta, hærri lífeyri og fjórfalt frítekjumark
  • Réttlátan arð af auðlindum í stað skatta á almenning
  • Ekkert brask með heilbrigði fólks eða þjóðareignir

Þrátt fyrir efnahagslegan uppgang þurfa margir í röðum öryrkja, eldri borgara, sjúklinga og barnafólks að óttast um afkomu sína um hver mánaðamót. Láglaunafólk og leigjendur eru fastir í fátæktargildru með þeim afleiðingum að mörg börn búa við fátækt og skort. Ungt fólk kemst ekki úr foreldrahúsum. Næsta ríkisstjórn verður að taka afdrifarík skref til þess að bæta kjör þessa fólks.

  • Aukum verulega stuðning við barnafjölskyldur með tvöfalt hærri barnabótum og auknum húsnæðisstuðningi.
  • Stuðlum að byggingu þúsunda leiguíbúða á vegum félaga sem starfa án hagnaðarsjónarmiða.
  • Færum skattabyrði frá milli- og lágtekjufólki til þeirra sem hana geta borið.
  • Tryggjum að þjóðin fái réttlátan arð af sameiginlegum auðlindum.
  • Bætum lífsgæði aldraðra og öryrkja, hækkum lífeyri og drögum verulega úr tekjuskerðingu lífeyris.