Stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands samþykkt á landsfundi 2018

Forgangsmál Samfylkingarinnar er að bæta velferð og kjör alls almennings. Styðja þarf betur við bakið á barnafjölskyldum, hækka barnabætur, lengja fæðingarorlof og tryggja að öll börn eigi kost á leikskólaþjónustu. Við ætlum að auka stuðning við öryrkja og aldraða, sem margir hverjir búa við skammarlegar aðstæður og afnema krónu á móti krónu skerðingar í almannatryggingakerfinu.

Við viljum auka húsnæðisstuðning bæði til þeirra sem leigja á gróðadrifnum leigumarkaði og þeirra sem eiga húsnæði en glíma við alltof háa vexti og verðtryggingu. Byggja þarf strax þúsundir leiguíbúða í félögum sem starfa án hagnaðarsjónarmiða.

Alltof margir á Íslandi búa við kröpp kjör. Þrátt fyrir efnahagslegan uppgang óttast barnafólk, eldri borgarar, öryrkjar og sjúklingar um afkomu sína um hver mánaðamót.

Láglaunafólk og leigjendur eru fastir í fátæktargildru með þeim afleiðingum að þúsundir barna búa við fátækt og skort. Ungt fólk kemst ekki úr foreldrahúsum og vaxandi hópur hefur ekki efni á að leita sér lækninga.

Hvert barn sem býr við skort er einu barni of mikið. Í jafn ríku þjóðfélagi og Íslandi á enginn að þurfa að búa í fátækt.

Forsenda öflugs velferðarkerfis er kröftugt og frjálst atvinnulíf sem byggir á nýsköpun og góðri menntun. Atvinnulífið þarf að búa við öruggt rekstrarumhverfi og stöðugun gjaldmiðil.

 

Sterkari Samfylking forsenda framfara

Frá því Samfylkingin fór úr ríkisstjórn hefur verið rekin hægri stefna sem gagnast best þeim sem mest hafa milli handanna. Sterkari Samfylking er nauðsynleg til þess að knýja í gegn löngu tímabærar samfélagsbreytingar þar sem almannahagur er í senn hreyfiafl og lokatakmark. Í haust svöruðum við kalli um meiri mannúð í útlendingamálum og unnum þar áfangasigur þó ýmis verk séu enn óunnin í þeim málaflokki.

Því miður hefur ekki tekist að mynda meirihluta á þingi sem hreyfir sig í takt við nýja strauma þó að almenningur hafi ítrekað lýst vilja sínum til breytinga:

  • Eftir kosningarnar í haust var hægt að mynda meirihluta á þingi um aukin jöfnuð og betri lífskjör almennings – samt er áfram rekin hægri stefna sem ógnar félagslegum og efnahagslegum stöðugleika
  • Eftir kosningar 2016 var hægt að mynda frjálslyndan meirihluta um betri samskipti við Evrópu, réttláta gjaldtöku í sjávarútvegi og landbúnaðarkerfi sem gagnaðist neytendum og bændum – samt var umbótum frestað
  • Árið 2012 greiddi meirihluti þjóðarinnar atkvæði með nýrri stjórnarskrá – samt hefur hún verið svæfð í nefndum

Sérhagsmunir hafa komið í veg fyrir að þessi umbótamál, sem Samfylkingin var stofnuð um hafi orðið að veruleika. Annað mikilvægt leiðarljós í starfi Samfylkingar frá stofnun hafa verið lýðræðisleg, fagleg og gagnsæ vinnubrögð í íslenskum stjórnmálum. Stjórnmálamenn þurfa að umgangast þessi gildi af meiri virðingu ef takast á að endurreisa traust á íslenskum stjórnmálum.

 

Frelsi, jafnrétti og samstaða

Yfirskrift landsfundar í ár er gamalkunnug en með nýrri tilvísun: Frelsi, jafnrétti og samstaða. Gildin úr frönsku byltingunni sem jafnaðarstefnan stendur á eiga enn fullt erindi í íslensk stjórnmál. Við tölum um samstöðu frekar en bræðralag vegna þess að samstaða allra um hagsmuni almennings er nauðsynleg ef mæta á áskorunum framtíðarinnar. Konur sem hafa stigið fram á liðnum mánuðum undir merkjum #METOO eru skýrt dæmi um það hverju samstaða getur skilað.

Samfylkingin vill byggja upp fjölmenningarsamfélag á Íslandi. Við viljum að Ísland beri meiri ábyrgð og taki á móti fleiri flóttamönnum og vandi betur móttöku á fólki sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi. Við viljum virða mannréttindi allra og höfnum alfarið þeirri brotastarfsemi, sem er alltof algeng hér á landi þegar fólki eru borguð laun undir lágmarkslaunum og brotið á öðrum réttindum þeirra. Félagsleg undirboð bitna ekki bara á þeim sem verða beint fyrir brotunum heldur grafa þau undan störfum þeirra sem fá eðlileg laun fyrir sína vinna og þeim atvinnurekendum sem fara eftir reglum. Jafnaðarmenn leggja mikla áherslu á að bæta þjónustu við börn og fullorðna með annað móðurmál en íslensku því samfélag með jöfnuði verður ekki byggt án þess að búa vel að þeim sem hafa flust hingað til lands eða eiga rætur að rekja til annarra þjóða.

Hin „gleymda“ styrjöld í Jemen geisar sem aldrei fyrr og hefur valdið neyðarástandi í landinu. Íslendingar hafa komið við sögu þessara þjáninga með því að leyfa vopnaflutninga til eins helsta stríðsaðilans. Um leið og Samfylkingin harmar þær stjórnvaldsaðgerðir telur hún fulla ástæðu til að íslensk stjórnvöld veki á alþjóðavettvangi athygli á neyðinni í Jemen, hvetja til þess að allir aðilar máls leggi niður vopn og boðað verði til friðarviðræðna hið skjótasta.

 

Tæknibylting kallar á breytta skatta- og menntastefnu

Samfélag okkar stendur frammi fyrir tæknibyltingu sem mun hafa miklar breytingar í för með sér og eru þær að sumu leyti enn ófyrirséðar. Gervigreind gefur vélum áður óþekkta hæfni til að leysa verkefni og störf sem fólk með háskólamenntun, sérhæfða starfsmenntun og ófaglært sinnir í dag. Mikil tækifæri felast í sjálfvirknivæðingu og gervigreind en einnig ógnir ef ekki er rétt haldið á málum.

Móta verður skattkerfið í takt við þennan nýja veruleika þannig að öruggt verði að hinir ríku verði ekki sá hópur sem nýtur framfara langt umfram aðra.

Menntun leikur lykilhlutverk í undirbúningi þessarar framtíðar. Gæðamenntun fyrir alla sem tekur mið af þörfum, áhuga og hæfileikum hvers og eins er hryggjarstykkið í framsækinni stefnu jafnaðarmanna, því með jöfnum tækifærum allra barna til menntunar leggjum við grunn að samfélagi þar sem allir fá notið sín, óháð efnahag, uppruna eða félagslegri stöðu. Menntastefna 21. aldarinnar þarf að byggja á skapandi og gagnrýnni hugsun, leggja þarf áherslu á fjölbreytta nýtingu upplýsingatækni og efla list- og verknám til að mæta fjölbreytileika nemendahópsins. Ríki og sveitarfélög þurfa að taka höndum saman um að fjölga þeim sem leggja stund á kennaranám og störf í velferðarþjónustunni.  Þá þarf að efla starfsþróun til að mæta þeim sem þurfa að horfast í augu við breytingar á stöðu sinni vegna nýrra atvinnuhátta.

Með nýrri tækni skapast tækifæri til þess að auka verðmætasköpun, ná betri árangri en áður í umhverfisvernd og baráttunni gegn hlýnun jarðar.

 

Sveitarstjórnarkosningnar í vor

Sveitarstjórnir gegna sífellt stærra og mikilvægara hlutverki. Reynslan sýnir að því nær íbúum sem þjónustan er, því betri er hún.  En það er ekki endalaust hægt að flytja verkefni til sveitarfélaga án þess að fjármagn fylgi og á þessu er því miður brotalöm. Meðal brýnustu verkefna Alþingis er að endurskoða skiptingu tekjustofna ríkis og sveitarfélaga og tryggja sveitarfélögum stærri hlut til að standa straum af vaxandi kostnaði við rekstur almannaþjónustunnar.

Í sveitarstjórnum verðum við að finna áherslu okkar á menntun, umhverfismál og öfluga félags- og nærþjónustu farveg. Sem dæmi þá hefur Reykjavík gjörbreyst á okkar vakt og Reykjavíkurlistans. Reykjavík hefur gjörbreyst, í nútímalega borg sem veitir góða þjónustu og leggur áherslu á mannréttindi, kvenfrelsi, menntun og menningu. Þar hefur þétting byggðar skipt miklu og Borgarlína mun reka smiðshöggið á. Borgin er orðin fallegri, heilsusamlegri og loks eru þessi áform mikilvægt innlegg í baráttu þjóðarinnar gegn loftslagsvandanum.

Það er því mikilvægt að okkur vegni vel út um allt land í kosningum í vor. Í þeim kappleik munu takast á framtíðin og fortíðin, jafnaðarmenn sem vilja tryggja framgang nauðsynlegra umbótamála og öfl afturhalds sem munu standa í vegi fyrir breytingum.

Breytum rétt – veljum spennandi framtíð undir forystu jafnaðarmanna!