Sveitarstjórnarkosningar 2018 - yfirlýsing

Stjórn Samfylkingarinnar lýsir yfir ánægju með niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna sem fram fóru 26. maí síðast liðinn og vill koma þakklæti á framfæri.

Ljóst er að Samfylkingin hefur mikil áhrif í íslenskum stjórnmálum. Flokkurinn hlaut samanlagt um fimmtung allra atkvæða þar sem hann bauð fram.

Samstarfssamningar hafa nú verið undirritaðir víða. Samfylkingin leiðir áfram í Reykjavík með borgarstjórann í fararbroddi. Þar að auki tekur Samfylkingin þátt í meirihlutasamstarfi í fjölmennum sveitarfélögum út um allt land, svo sem á Akureyri, í Reykjanesbæ, Árborg, Norðurþingi, Borgarbyggð og á Akranesi.

Sameiginlegir listar með þátttöku Samfylkingarinnar voru einnig sigursælir og sitja í meirihluta sveitarstjórna t.d. í Sandgerði og Garði, Fjallabyggð, Fjarðarbyggð, Þingeyjarsveit og Vestmanneyjum.

Listar Samfylkingarinnar, S-listar og sameiginlegir, voru skipaðir fólki með margvíslegan bakgrunn.  Hlutfall kynjanna var hnífjafnt enda hefur flokkurinn ávallt lagt höfuðáherslu á hvers kyns jafnrétti. Ungt fólk var auk þess áberandi bæði á listum og í sjálfboðastarfi og augljóst að framtíðin er björt.

Samfylkingin er stærsti flokkurinn frá miðju til vinstri og næst stærsti flokkurinn á landsvísu. Tækifæri eru því til að stækka enn frekar og spennandi tímar framundan hjá Samfylkingunni – jafnaðarmannaflokki Íslands.

 

Stjórn Samfylkingarinnar

Logi Einarsson, formaður
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður
Inga Björg Margrétar Bjarnadóttir, formaður framkvæmdarstjórnar
Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, ritari
Hákon Óli Guðmundsson, gjaldkeri
Ólafur Þór Ólafsson, formaður Sveitarstjórnarráðs