Þorgrímur Kári Snævarr

Þorgrímur Kári Snævarr heiti ég og hef ákveðið að gefa kost á mér í flokksstjórn Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins 6. - 7. nóvember. Ég er nem lögfræði og sagnfræði við Háskóla Íslands og er gjaldkeri í núverandi framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna. Í framkvæmdastjórn UJ 2019-2020 var ég útgáfustjóri og ritstýrði sem slíkur síðasta eintaki ársritsins Jöfn og frjáls, þar sem fjallað var um stöðu íslenska heilbrigðiskerfisins með hliðsjón af kórónaveirufaraldrinum sem nú geisar.

Mér þykir ljóst af umræðu síðastliðinna ára að gjá er á milli kynslóða í nútímastjórnmálum, sér í lagi í samfélags-, jafnréttis- og umhverfismálum, og þá jafnvel innan stakra stjórnmálaflokka . Í dag er verið að taka ákvarðanir sem koma til með að hafa eftirköst langt út fyrir líftíma flestra núverandi valdhafa og því er mikilvægt sem aldrei fyrr að fulltrúar ungliðahreyfinga beiti öllum mögulegum ráðum til að hafa áhrif. Nú er kosningaár í þann mund að ganga í garð og ef Samfylkingin sest í stjórn að kosningum loknum mun það koma í hlut flokksstjórnar að samþykkja stjórnarsáttmála. Sem fulltrúi í flokksstjórn vonast ég til þess að ég, ásamt fleiri Ungum jafnaðarmönnum, fái að staðfesta ríkisstjórn sem þjónar hagsmunum uppkomandi kynslóða – ólíkt núverandi stjórn.

-        Þorgrímur Kári Snævarr