Þorleifur Örn Gunnarsson - 5. sæti

Ég er uppalinn Vesturbæingur, bjó um árabil í miðbænum og bý nú í fjölbýlishúsi í Fossvoginum ásamt sambýliskonu minni Thelmu Sif Sævarsdóttur og börnunum okkar tveimur, Bjarti sem er þriggja ára og Sóleyju sex mánaða.  Ég er grunnskólakennari og umsjónarkennari í 10. bekk í Langholtsskóla.

Ég hef starfað með börnum og ungmennum síðan 2005 þegar ég hóf störf á leikskóla þar sem ég vann svo um tveggja ára skeið. Gegnum störf mín í leikskólanum kviknaði áhugi minn á fagstarfi með börnum og unglingum. Þessi vinna breytti lífi mínu, ég áttaði mig á því að ég vildi verða kennari.

Eftir að hafa kláraði B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræði frá Háskóla Íslands þá langaði mig að víkka sjóndeildarhringinn og fara í framhaldsnám erlendis. Ég fékk skólavist í Columbia háskóla í New York. Af öllu sem ég upplifði var líklega lærdómsríkast að kenna í tveimur skólum í borginni. Annar þeirra var við 14. stræti á Manhattan en hinn í Suður Bronx, einu fátækasta hverfi Bandaríkjanna. Mjög ólíkir skólar en það var líka ólíkur hópur barna sem sótti hvorn skóla en það var svo skýrt hversu dýrmætt jöfnunartæki grunnskólar eru í samfélögum. Besta leiðin til að skapa gott samfélag er að búa börnunum okkar öruggt umhverfi þar sem öll börn fá tækifæri til að blómstra.

Með meistaragráðu í kennslufræðum í farteskinu sneri ég heim og hef unnið sem grunnskólakennari síðan, bæði sem umsjónarkennari og sem verkefnastjóri í upplýsingatækni í grunnskóla. Í stuttu máli hef ég brennandi áhuga á því hvernig við undirbúum nemendur sem best fyrir líf og störf í heimi framtíðarinnar. Ég hef því undanfarin ár lagt mig fram um að þróa kennsluhætti og hjálpað öðrum kennurum að feta sína eigin slóð.  

Ég hef starfað á öllum skólastigum, leikskóla, yngsta stigi, miðstigi og unglingastigi grunnskóla, kennt á framhaldsskólastigi í Bandaríkjunum og að lokum starfað sem aðjúnkt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Meðfram námi og samhliða kennslu hef ég unnið í samtals 7 ár í félagsmiðstöð, stýrði sumarnámskeiðum og endaði sem forstöðumaður. Ég tek ótrúlega mikið með mér frá þeirri vinnu, bæði í lífi og starfi. Góð félagsmiðstöð sem rekin er af faglegum metnaði getur skilað ómetanlegu félagslegum ágóða til samfélagsins. Ég hef því mikla reynslu og þekkingu á skóla- og frístundastarfi sem ég vil nýta í þágu borgarinnar.

Ég hef lengi dregist að félagsstörfum, tók virkan þátt í stúdentapólitíkinni með Röskvu og sat í stjórn Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Ég beitti mér í kennaranámi bæði sem varaformaður nemendafélagsins en einnig í fagnefndum Menntavísindasviðs með kennurum deildarinnar. Ég var kjörinn fulltrúi í Student Senate í Teachers College Columbia University. Undanfarin ár hef ég svo verið varaformaður Félags fyrrum Fulbright styrkþega sem hefur það helst fyrir stafni að safna fé til að hjálpa fleirum að fá námsstyrki til Bandaríkjanna sem ég naut sjálfur góðs af. Ég hef svo verið meðlimur í Samfylkingunni síðan einhverntíman fyrir hrun og gert allskonar svo sem setið í uppstillingarnefndum nú síðast sem meðlimur í Málefnanefnd flokksins um menntamál.

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, þegar ég bjó um tíma á Seltjarnarnesi, skipaði ég 3. sæti á lista Samfylkingar Seltirninga sem fékk prýðilega kosningu. Ég hef svo setið sem varabæjarfulltrúi og nefndarmaður í skipulags- og umferðarnefnd sveitarfélagsins og svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins, þar til ég flutti til Reykjavíkur aftur með dýrmæta reynslu.

Ég vil láta gott af mér leiða, þess vegna gerðist ég kennari. Nú tel ég að sérþekking mín, áhugi og reynsla komi að gagni í borgarmálunum.