Valgarður Lyngdal Jónsson

Kæru félagar

Ég heiti Valgarður Lyngdal Jónsson og ég býð mig fram til starfa í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar.

Ég er 48 ára grunnskólakennari og bý á Akranesi. Konan mín heitir Íris Guðrún Sigurðardóttir og er aðstoðarskólastjóri í einum af leikskólum bæjarins. Við eigum þrjú börn á aldrinum 16, 22 og 26 ára og einn glænýjan dótturson sem fæddist í júlí síðastliðnum.

Ég hef setið í bæjarstjórn á Akranesi síðastliðin 6 ár, er oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, forseti bæjarstjórnar og sit í bæjarráði. Við, bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar, störfum nú í meirihluta með bæjarfulltrúum Framsóknar. Við höfum notað kjörtímabilið vel til uppbyggingar í vaxandi samfélagi og má þar nefna metnaðarfulla húsnæðisáætlun með skýrum félagslegum áherslum, uppbyggingu í skóla- og íþróttamannvirkjum, enduruppbyggingu vinnu- og hæfingarstaðar fyrir fatlaða og margt fleira. Ný menntastefna er í undirbúningi á Akranesi og við leggjum allan okkar metnað í að búa vel að skóla- og velferðarmálum í okkar samfélagi.

Ég er jafnaðarmaður af lífi og sál, trúi á jöfn tækifæri og lífsgæði fyrir alla. Ég er alþjóðasinni og er sannfærður um að aðild að Evrópusambandinu sé stærsta einstaka hagsmunamál íslenskra launþega. Ég er skólamaður og tel mikilvægt að skólarnir okkar fái aukin tækifæri til nýsköpunar og nýrrar hugsunar nú við upphaf fjórðu iðnbyltingarinnar. Ég er landsbyggðarmaður og hef mikinn áhuga á því að efla félagsstarf Samfylkingarinnar um allt land, undir merkjum Samfylkingarinnar. Ég er launþegi og tel mikilvægt að Samfylkingin rækti tengslin við verkalýðshreyfinguna og baráttu hennar.

Kæru jafnaðarmenn, stöndum saman og sköpum sterka Samfylkingu!