Verkefnin framundan í stjórnmálum: ræða Guðmundar Andra

Fyrsti þingfundur ársins var settur í dag kl 15:00 og byrjaði á dagskrárliðnum Staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra.

Guðmundur Andri Thorsson flutti ræðu fyrir hönd Samfylkingarinnar í fjarveru formanns og sagði meðal annars;

Fjölskyldufólk er svo sannarlega salt jarðar og undirstaðan í farsælu samfélagi en stundum er eins og allt samfélagið sé sett á herðarnar á því fólki á sama tíma og það ætti að vera að einbeita sér að því að ala börnin sín upp.

Barnafólk þarf að vinna hörðum höndum til að hafa í sig og á og standa undir stórfelldum kostnaði við þau lágmarksmannréttindi að hafa þak yfir höfuðið, eiga heimili; það þarf að borga námslánin; það þarf að borga matinn sem er óhóflega dýr hér vegna krónu og vöruverndar; það þarf að borga virðisaukaskattinn á nauðsynjavörur; það þarf að borga tómstundastarfið og heimsóknir til lækna og skóladótið og allt hitt sem fylgir blessuðum börnunum; það þarf að borga lánin af bílunum til að komast á milli með börnin og sig; það er kannski líka á ótryggasta leigumarkaði Evrópu og þarf að rífa sig og sína upp á fardögum með nýjum áskorunum; hjá einmitt þessu fólki þykir ástæða til að barnabæturnar séu skertar ef það dirfist til að afla sér tekna sem gætu komið því spölkorn frá heljarþröminni.

Og nái áform ríkisstjórnarinnar fram að ganga þarf þetta fólk brátt að borga vegaskatta milli bæjarhluta til að byggja upp ónýtt vegakerfi landsins.

Ræðuna má nálgast í heild sinni hér.