Vinstri græn halla sér þétt upp að Sjálfstæðisflokknum í skattamálum

Ræða Loga Einarssonar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 14.12.2017

Herra forseti, ágætu landsmenn.

Ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og fagna því að nú situr kona, í forsæti öðru sinni.  Vonandi telst það ekki til tíðinda í náinni framtíð.

Það eru nokkur ágætis fyrirheit í nýjum sáttmála. Metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, lenging fæðingarorlofs og átak í samgöngumálum, svo eitthvað sé nefnt.

Þá eru boðuð aukin framlög til heilbrigðis og menntamála, þó það sé mikið áhyggjuefni að bæta eigi í rekstur, án þess að byggja það á varanlegri tekjuöflun.

Þá er nefnt að styrkja eigi Alþingi og ná betri samstöðu með minnihlutanum.  Fyrstu skref ríkisstjórnarinnar benda þó til lítils annars en að nú eigi allt falla í ljúfa löð af því að nákvæmlega þessir flokkar setjast í ríkisstjórn.  Öllum óskum minnihlutans var hafnað en með sáttinni vísað í þverpólitískar nefndir, m.a. í stjórnarskrármálinu og um útlendingalög.

Það þarf nú ekkert sérstakt hugmyndaflug til að sjá að sú tilhögun varpar fyrst og fremst ljósi á óleystan ágreining ríkisstjórnarflokkanna.

Hæstvirtur forsætisráðherra freistar þess í ræðunni að réttlæta stjórnarsamstarfið og talar um óvenjulegar aðstæður, breitt samstarf, gildi málamiðlana og mikilvægi þess að skapa traust.

Það sem einkum hefur skilið þessa flokka að er afstaða þeirra til skattkerfisins og viðhorf til jöfnuðar.  Í stjórnarsáttmálanum felst sú málamiðlun að Vinstri græn halla sér þétt upp að Sjálfstæðisflokknum í skattamálum. Hún fellst því aðallega í því að gefa afslátt í baráttunni gegn ójöfnuði.

Breidd samstarfsins er að öðru leyti stórlega orðum aukin. Þau eru fullkomlega samstíga í varðstöðu um sérhagsmuni og afturhald í málum sem þarfnast umbóta: Um ónýtan gjaldmiðil, háa vexti, óréttlæti í sjávarútvegi, einokun í landbúnaði og úrelta stjórnarskrá.

Viðhorf þeirra til sameiginlegra auðlinda almennings er svo kórónað í stórnarsáttmálanum, með leyfi forseta: „Eftir því sem fiskeldinu vex fiskur um hrygg þarf að ræða framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku vegna leyfisveitinga.“  Það á sem sagt að gefa takmarkaðar auðlindir.

Traustið sem hæstvirtum forsætisráðherra er svo tíðrætt um í ræðunni er nærtækast að endurheimta með baráttu gegn þeirri spillingu, leyndarhyggju og frændhygli sem varð tveimur síðustu ríkisstjórnum að falli.

Það hyggjast Vinstri græn gera með því að leiða aðal leikarana úr tveimur síðustu harmleikjum á sviðið á ný; meira eða minna í sömu hlutverkum.

Það ekki trúverðugt að fela núverandi fjármálaráðherra endurskipulagningu bankanna og láta hann sýsla með arð af ríkisfyrirtækjum. Kaldhæðni að hann leiði baráttu gegn skattsvikum og undanskotum.

Og það eru vonbrigði að dómsmálaráðherra sem tók flokkinn sinn fram yfir almenning í nýlegu máli, er varðar uppreist æru, skulli leidd aftur til valda. Dapurlegt að treysta henni fyrir málefnum flóttamanna.

Nei herra forseti, þetta samstarf mun ekki endurreisa traust á íslenskum stjórnmálum en líklega hitti hæstvirtur forsætisráðherra þó naglann á höfuðið þegar hún sagði í ræðunni að „þetta væri svolítið óvenjuleg nálgun“.

Kæru landsmenn. Samtakamáttur kvenna að undanförnu sýnir okkur skýrt að það þarf hugarfarsbyltingu í samfélaginu. Hann teiknar upp skýra og afar ógeðfellda mynd af árþúsunda gamalli karlamenningu sem stendur í veginum fyrir jafnrétti kynjanna. Það er auðvitað nauðsynlegt að ráðast í stórsókn gegn kynbundnu ofbeldi, en ekki síður kerfislægri niðurlægingu, mismunun og ókurteisi gegn konum, sem eitra allt daglegt líf, jafnvel án þess að við karlar gerum okkur fyllilega grein fyrir því.

Og eins mikilvægt og það er að konur rjúfi glerþök Alþingis og annara valdastofnanna, má ekki gleyma að mörg erfiðustu og mikilvægustu störf samfélagsins, sem eru nær eingöngu unnin af konum, eru láglauna störf; Nægir að nefna  fiskvinnslu- og ræstingarkonur, sjúkraliða, kennara.  Þetta er því miður engin tilviljun, heldur karllægt gildismat og afar skýr birtingarmynd kynjamisréttis og ójöfnuðar í samfélaginu.

Og á þessu fordæmalitla hagvaxtarskeiði ætti baráttan fyrir jafnrétti kynjanna, og gegn misskiptingu einmitt að vera megin viðfangsefni stjórnvalda.

Hæstvirtur forsætisráðherra á það til að vitna í franska hagfræðinginn Thomas Piketty.   Hann sagði, með leyfi forseta:

„Ein leið til þess dreifa auðinum jafnar er að lækka skatta á stóra hópa og hækka skatta á þá sem allra mest eiga, til að misskiptingin auðs, nái ekki hæstu hæðum.“

Þessi orð rýma prýðilega við stefnuskrá Vinstri grænna, en ekki við stjórnarsáttmálann eða fjárlög.

Það er nauðsynlegt að styrkja innviði og almannaþjónustu. Til þess þarf þó að afla varanlegra tekna. Ekki berja aðeins í brestina og nota afgang og arð sem eru jafn hverfulir og íslenskt veður.

Á toppi hagsveiflu er besti tíminn til þess að auka tekjur og jafna kjörin.  Það er auk þess skynsamlegt, til þess að fresta og milda næstu niðursveiflu, lækka vexti og halda aftur af verðbólgu.

Ríkisstjórnin ætlar hins vegar að setjast í sófann, éta úr ísskápnum og hirða ekki um að fara út og draga björg í bú. Líklega nóg til að þeirra mati. Afleiðingum þess er velt yfir á næstu ríkisstjórn.

Hækkun skatts á fjármagnstekjur mun litlu sem engu skila vegna nýrrar reiknireglu. Lækka á neðra þrep tekjuskatts, sem færir þeim tekjuhæstu þrefalt meira í vasann en öðrum á lágmarkslaunum. Fólki sem getur með engu móti náð endum saman.

Ríkissjóður verður af milljörðum króna í tekjur sem gætu nýst til að ráðast gegn ójöfnuði og fátækt.

Kannski birtist þó forgangsröðun ríkisstjórnarinnar með nöturlegustum hætti þegar bornar eru saman tvær setningar úr stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta:

„Eitt af fyrstu verkefnum ríkisstjórnarinnar verður að bregðast við vanda sauðfjárbænda til skemmri og lengri tíma”.

Á öðrum stað, með leyfi forseta; „Gerð verði úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir. Sérstaklega þarf að huga að stöðu barna sem búa við fátækt…”

Hæstvirta ríkisstjórn, það er hægt að hefjast strax handa til að bæta hag fátækra barna.  Úttekt má hins vegar vel gera samhliða.  Við vitum nákvæmlega hvar skórinn kreppir og þekkjum vel  leiðir til að losa um hann.

Hækka þarf barna- og vaxtabætur, ásamt grunnlífeyri aldraðra og öryrkja.  Lítið er minnst á þetta í stjórnarsáttmálanum og engar hækkanir í fjárlögum. Sama á við um innflytjendur og fólk á flótta.

Umfram allt verður að ráðast í stórátak í húsnæðismálum. Því miður snýr umfjöllun ríkisstjórnarinnar helst að því að þrengja lánamöguleika ungs fólks.

Herra forseti.  Bilið milli fátækra og ríkra mun halda áfram að aukast, undir forsæti sósíalista: Einhvern tímann hefðu það þótt tíðindi.

Kæru landsmenn. Hæstvirtur forsætisráðherra segir að í augum alþjóðasamfélagsins séum við fyrirmyndar þjóðfélag að ýmsu leiti. Og að við eigum að gleðjast yfir því sem vel gengur.

Það er hárrétt og Þó það sé vafalaust rétt að allir hafi það nokkuð gott að meðaltali, birtast daglega óhuggulegar andstæður; líka hér á Íslandi:

Eldri hjón sitja fyrir framan arineld í rándýru einbýlishúsi og skrifa jólakort meðan gömul kona hýrist í kjallaraholu og veltir því fyrir sér hvort hún eigi að greiða rafmagnsreikninginn eða sækja sér læknishjálpar.

Miðaldra kall sankar að sér íbúðum til að leigja á gróðavæddum skortmarkaði, meðan annar heldur upp á fimmtugsafmælið sitt í húsbíl í Laugardal og vonar að nóttin verði ekki köld.

Útsjóna samur auðkýfingur andar léttar í lok dags eftir að hafa komið peningunum sínum fyrir á Panama en lítill strákur fær ekki bestu mögulegu lyf vegna þess að það vantar tugi milljarða af týndu fé í samneysluna.

Ung fjölskylda, með börn, situr í þotu á leið til Þýskalands í aðventuferð. Fáum sætum aftar er ungur maður, veik ófrísk kona og lítið barn þeirra á leið burt úr öryggi, út í óvissuna, vegna þess að Ísland hafði ekki tök á því að veita þeim skjól.

Lítill strákur fer að sofa á Þorláksmessukvöldi, fullur tilhlökkunar. Hann er sannfærður um að Kertasníkir verður rausnarlegur morguninn eftir og vonast svo eftir leikjatölvu í jólagjöf.  Bekkjarfélagi hans skríður upp í rúmið sitt á sama tíma, veit að hann fær ekkert í skóinn og sofnar með kvíðatilfinningu vegna jólanna.

Kæru landsmenn við getum gert svo mikið betur; gleðilega aðventu.

Horfa á ræðu: