Guðmundur Árni og Jón Grétar endurkjörnir

Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, hefur verið endurkjörinn varaformaður Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands.

Guðmundur Árni, sem kjörinn var varaformaður árið 2022, sóttist eftir endurkjöri og var einn í framboði. Hann var því sjálfkjörinn í embættið. Þetta varð ljóst þegar framboðsfrestur rann út kl. 15:30 í dag.

Jón Grétar Þórsson, sem hefur verið gjaldkeri Samfylkingarinnar frá 2022, hefur einnig verið endurkjörinn til þess hlutverks. Hann fékk ekkert mótframboð og var því sjálfkjörinn.

Ritaraslagur skýrist á sjöunda tímanum

Nú stendur yfir kjör til stjórnar á landsfundi. Kristrún Frostadóttir sig fram til embættis formanns að nýju og hlaut 98,67% greiddra atkvæða.

Í hlutverk ritara komu fram tvö framboð. Guðný Birna Guðmundsdóttir oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ og Gylfi Þór Gíslason formaður verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar bjóða sig fram og kynntu sig með kraftmiklum ræðum fyrir landsfundarfulltrúum.

Ritarakjörið hófst 17:40 og úrslit liggja fyrir á nítjánda tímanum.

Katrín ein í framboði til formanns framkvæmdastjórnar

Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og varaformaður flokksins, er sú eina sem hefur boðið sig fram til formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar.

Ekki er þó hægt að lýsa kjöri hennar strax, þar sem þau bjóða sig fram til embættis ritara eiga kost á að bjóða fram krafta sína í embætti formanns framkvæmdastjórnar, ef þau lúta í lægra haldi í kosningu til ritara.  

Ef svo fer ekki, verður Katrín sjálfkjörin í embættið.

Tugir vilja í framkvæmdastjórn og flokksstjórn

Mikil gróska er í starfi Samfylkingarinnar um þessar mundir og er fjöldi framboða til annarra trúnaðarstarfa flokksins til marks um það. Í fyrramálið fara fram kosningar til framkvæmdastjórnar, flokksstjórnar og verkalýðsmálaráðs.

Sextán manns gefa kost á sér til setu í framkvæmdastjórn flokksins, en þar verða 6 manns kjörin sem aðalmenn og 6 manns til vara.

Framboð til flokksstjórnar eru svo 60 talsins, en einungis 30 manns munu ná kjöri til flokksstjórnar.

Þrettán framboð bárust svo til stjórnar verkalýðsmálaráðs, þar eru 5 stjórnarsæti í boði.