Guðný Birna og Katrín koma inn í forystusveitina

Guðný Birna Guðmundsdóttir og Katrín Júlíusdóttir voru kjörnar ritari og formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar á landsfundinum, sem fer nú fram í Grafarvogi.
Guðný Birna Guðmundsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, er nýr ritari flokksins. Hún var kosin með rúmum meirihluta atkvæða á landsfundi flokksins í Grafarvogi í dag.
Guðný Birna hlaut nánar tiltekið 76,47 prósent atkvæða í kjörinu, en Gylfi Þór Gíslason, formaður verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar, hlaut 21,67 prósent atkvæða. 1,86 prósent greiddra atkvæða voru auð.
Katrín nýr formaður framkvæmdastjórnar
Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og varaformaður flokksins, var sú eina sem bauð sig fram til formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar.
Þegar úrslit ritarakjörsins lá fyrir varð einnig ljóst að Katrín yrði sjálfkjörin í það hlutverk innan stjórnar flokksins.
Snýr Katrín því aftur í stjórn flokksins, en hún var varaformaður Samfylkingarinnar 2013 til 2016.
Ný forysta Samfylkingarinnar:
Formaður: Kristrún Frostadóttir
Varaformaður: Guðmundur Árni Stefánsson
Ritari: Guðný Birna Guðmundsdóttir
Formaður framkvæmdastjórnar: Katrín Júlíusdóttir
Gjaldkeri: Jón Grétar Þórsson
Þingflokksformaður: Guðmundur Ari Sigurjónsson
Formaður sveitarstjórnarráðs: Árni Rúnar Þorvaldsson
Tugir vilja í framkvæmdastjórn og flokksstjórn
Mikil gróska er í starfi Samfylkingarinnar um þessar mundir og er fjöldi framboða til annarra trúnaðarstarfa flokksins til marks um það. Í fyrramálið fara fram kosningar til framkvæmdastjórnar, flokksstjórnar og verkalýðsmálaráðs.
Sextán manns gefa kost á sér til setu í framkvæmdastjórn flokksins, en þar verða 6 manns kjörin sem aðalmenn og 6 manns til vara.
Framboð til flokksstjórnar eru svo 60 talsins, en einungis 30 manns munu ná kjöri til flokksstjórnar. Þrettán framboð bárust svo til stjórnar verkalýðsmálaráðs, þar eru 5 stjórnarsæti í boði.