Birkir Ingibjartsson - 3. - 4. sæti

Hæhæ, ég heiti Birkir Ingibjartsson og er 39 ára sjálfstætt starfandi arkitekt og varaborgarfulltrúi.
Ég er búsettur í Safamýri með fjölskyldunni minni en er alinn upp í Kópavoginum. Frá því ég var tæplega tvítugur hef ég þó búið eða verið með annan fótinn í Reykjavík. Helst má telja frá þau tæpu fimm frábæru ár sem við fjölskyldan bjuggum í Stokkhólmi. Ég er giftur Steinunni Hrólfsdóttur fatahönnuði og eiganda verslunarinnar Andrá Reykjavík á Laugaveginum og við eigum þrjú börn.
Í Stokkhólmi var ég bæði í mastersnámi í arkitektúr við Konunglega Tækniháskólann í Stokkhólmi (KTH) auk þess sem ég starfaði þar um tíma hjá VARG Arkitekter. Ég tók grunnnámið í arkitektúr við Listaháskóla Íslands á árunum 2009-2012 og smitaðist þar af miklum áhuga á Reykjavík og skipulagsmálum borgarinnar. Þar áður lauk ég grunnnámi (BSc) í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands árið 2009.
Á núverandi kjörtímabili hef ég verið varamaður í umhverfis- og skipulagsráði, ég var formaður íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis á tímabilinu 2022-2024 og hef setið í Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur frá febrúar 2025. Samhliða pólitískum störfum hefur mitt aðalstarf frá haustmánuðum 2022 verið að starfa sjálfstætt sem arkitekt. Við erum tveir félagar saman með litla teiknistofu og fáumst við hin ýmsu verkefni á sviði arkitektúrs og skipulagsmála, flest í smærri skala. Þar áður var ég verkefnastjóri hjá borgarskipulagi Reykjavíkur í þrjú ár þar sem ég tók þátt í þróun á stórum og smáum skipulagsverkefnum víða um borgina. Á meðal verkefna minna var t.a.m. undirbúningur og skipulagsvinna í tengslum við Borgarlínuna.
Það er ekkert launungarmál að það er áhugi minn á þróun og vexti borgarinnar sem dregur mig að vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur. Nú sem endranær eru stór verkefni til skoðunar og vinnslu sem munu marka með skýrum hætti hvernig borgarsamfélag Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins alls mun þróast næstu tvo til þrjá áratugi. Samfylkingin í Reykjavík hefur verið leiðandi afl í því samtali síðustu 10-15 árin og vil ég eiga þátt í því að svo verði áfram.
Borgarlínan og önnur verkefni Samgöngusáttmálans, almenn gæði byggðar og nærumhverfis okkar, bættir göngu- og hjólastígar, Sundabraut, næstu skref í uppbyggingu Vatnsmýrarinnar, húsnæðisuppbygging með félagslegu bakbeini og öflugir sjálfstæðir borgarhlutar eru meðal þeirra fjölmörgu mála og málaflokka sem munu koma til umfjöllunar, stefnumótunar og afgreiðslu borgarstjórnar Reykjavíkur á næsta kjörtímabili.
Mörg þessara mála hafa verið gagnrýnd harkalega af pólitískum andstæðingum Samfylkingarinnar á liðnum árum og að mínu mati oft að ósekju. Í mínum huga er sú stefna að byggja borgina inn á við og nýta og styrkja núverandi innviði í hverfum borgarinnar sú rétta. Vissulega má ávallt læra af því sem miður fer og víða þurfum við að gera betur þegar kemur að því að móta hið byggða umhverfi. Um leið þurfum við auðvitað að vera opin fyrir því að endurmeta áætlanir og þróa borgina í takt við þær þarfir sem hver tími kallar á.
Við þurfum hinsvegar að eiga öflugan málssvara borgarþróunar þar sem fjölbreyttir ferðamátar og lifandi mannlíf í borgarumhverfinu er útgangspunkturinn. Þar tel ég að mínar áherslur og faglega reynsla og þekking komi sterk inn og geti hjálpað til við að laða fram bestu mögulegu lausnirnar og þau tækifæri sem víða felast í borgarumhverfinu.
Það hefur verið dýrmæt reynsla síðustu fjögur ár að fá innsýn inn í gangverk borgarkerfisins frá sjónarhóli stjórnmálanna. Ég tel mig hinsvegar eiga mikið inni á vettvangi borgarinnar og vil gjarnan fá tækifæri til að verða virkari þátttakandi í að auðvelda hið daglega líf borgarbúa og móta framtíð Reykjavíkur. Ég óska því eftir þínum stuðningi í 3-4. sætið í flokksvalinu 24. janúar.
Með kveðju,
Birkir Ingibjartsson