Bjarni Þór Sigurðsson - 4. - 6. sæti

Ég heiti Bjarni Þór og gef kost á mér í 4. til 6. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík. Ég er Reykvíkingur og hef lengi haft sterka tengingu við borgina mína – ekki bara sem íbúi, heldur sem þátttakandi í samfélaginu og baráttunni fyrir betra lífi fólks. Ég er giftur og við eigum fimm börn og níu barnabörn. Sú reynsla mótar sýn mína á samfélagið, velferðina og ekki síst húsnæðismálin.
Ég býð mig fram í flokksvali Samfylkingarinnar vegna þess að ég tel að Reykjavík standi á tímamótum og þurfi skýra jafnaðarstefnu í verki.
Fjölbreyttur bakgrunnur – reynsla úr ólíkum áttum
Bakgrunnur minn er fjölbreyttur. Ég hef unnið við verslunarstörf, sjómennsku, kvikmyndagerð og fjölmiðla. Ég lærði kvikmyndagerð í París á níunda áratugnum og starfaði lengi við fjölmiðla, meðal annars hjá RÚV, 365 miðlum og Sýn.
Síðar lauk ég viðskiptafræðinámi við Háskóla Íslands, sem hefur nýst mér vel í störfum tengdum rekstri, stefnumótun og stjórnarsetu. Ég starfaði hjá ASÍ sem sérfræðingur í húsnæðismálum og starfa í dag hjá Birtingi útgáfufélagi, auk þess að starfa sem leiðsögumaður yfir sumartímann.
Ég hef verið virkur í Samfylkingunni frá stofnun flokksins og sat í stjórn Samfylkingarfélags Reykjavíkur um fjögurra ára skeið. Ég er jafnaðarmaður í gegn og tel að stjórnmál snúist fyrst og fremst um að jafna tækifæri fólks og tryggja félagslegt öryggi og réttlæti í daglegu lífi.
Húsnæðismál – mitt hjartans mál
Húsnæðismál eru mitt hjartans mál og hef ég unnið að þeim um langt árabil, einkum í gegnum verkalýðshreyfinguna. Ég hef setið í stjórn VR frá árinu 2011, þar af sem varaformaður í fjögur ár, og tekið þátt í mótun stefnu og ákvarðanatöku sem snýr að kjörum, velferð og lífsgæðum launafólks.
Ég hef einnig setið í miðstjórn ASÍ frá árinu 2013 og síðustu sjö ár í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna, þar sem ég hef fengið dýrmæta innsýn í samspil vinnumarkaðar, fjármála og samfélagslegra innviða.
Bjarg og Blær – tímamót í húsnæðissögu
Ég var einn af hvatamönnum að stofnun Bjargs íbúðafélags árið 2016. Markmiðið var einfalt: að tryggja launafólki öruggt og hagkvæmt húsnæði án hagnaðarsjónarmiða. Í dag hefur Bjarg byggt um 1.200 íbúðir sem veita jafnmörgum fjölskyldum raunverulegt húsnæðisöryggi og mun lægri leigu en á almennum markaði.
Ég sat í stjórn Bjargs frá stofnun og er nú formaður fulltrúaráðs Bjargs. Þá sit ég einnig í stjórn Blævar húsnæðisfélags VR, sem afhenti fyrstu leiguíbúðir til félagsmanna VR í upphafi síðasta árs.
Ég fullyrði að tilkoma Bjargs og systurfélagsins Blævar hafi verið mikið gæfuspor, marki tímamót í íslenskri húsnæðissögu og styrki öryggi, stöðugleika og jöfnuð í samfélaginu.
Húsnæði út frá lífshlaupi fólks
Við þurfum að hugsa húsnæðismál út frá lífshlaupi fólks. Ungt fólk þarf raunhæfa leið inn á markaðinn til að geta stofnað heimili og fjölskyldu. Þegar fjölskyldan stækkar eykst þörfin fyrir meira rými, öryggi og þjónustu í nærumhverfinu. Þegar börnin flytja að heiman breytast þarfir aftur – þá skiptir máli að fólk geti minnkað við sig án þess að þurfa að yfirgefa hverfið sitt eða samfélagið sem það tilheyrir.
Skynsamleg húsnæðisstefna í Reykjavík þarf því að byggja á fjölbreytni: blöndu af leigu- og eignaríbúðum, mismunandi stærðum og búsetuformum, sem gera fólki kleift að færa sig til eftir þörfum – án þess að öryggi eða lífsgæði skerðist.
Jöfn tækifæri á öllum æviskeiðum
Ég tel jafnframt að borgin verði að taka virkara hlutverk í því að tryggja öllum börnum og unglingum raunverulegan aðgang að skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Það má ekki ráðast af efnahag, bakgrunni eða móðurmáli hvort barn fái að taka þátt. Sérstök áhersla þarf að vera á börn með annað móðurmál en íslensku, svo þau standi ekki utan samfélagsins heldur fái jöfn tækifæri til þátttöku og tengslamyndunar.
Við eigum heldur ekki að sætta okkur við aukna félagslega einangrun eldra fólks. Einmanaleiki og aldursfordómar eru samfélagslegt verkefni. Reykjavík þarf að vinna markvisst að því að efla félagslega þátttöku eldri borgara og tryggja þeim virðingu, virkni og mannsæmandi hlutverk í borgarlífinu.
Í störfum mínum innan verkalýðshreyfingarinnar hef ég orðið vitni að vaxandi aldursfordómum. Fólk yfir 55 ára aldri mætir kerfisbundnum hindrunum, sérstaklega í atvinnuleit. Þetta er óréttlátt og sóun á dýrmætri reynslu og þekkingu.
Ég vil beita mér fyrir því að Reykjavíkurborg taki markviss skref til að bæta stöðu eldri borgara, vinna gegn aldursfordómum og skapa raunveruleg tækifæri til virkrar þátttöku fólks á efri árum.
Ég óska eftir þínum stuðningi.
Kæru félagar, ég óska eftir stuðningi ykkar í 4.–6. sæti í flokksvalinu. Ég tel að sú reynsla og þekking sem ég hef aflað mér í húsnæðis- og velferðarmálum muni nýtast borginni vel. Ég vil leggja mitt af mörkum til að byggja Reykjavík sem stendur með fólki, fjölskyldum og framtíðinni.