Eldhúsdagur: Guðjóns S. Brjánsson

Eldhúsdagsumræður fóru fram á Alþingi þann 29. maí 2017. Guðjón S. Brjánsson talaði fyrir hönd Samfylkingarinnar ásamt Loga Einarssyni, formanni.

 

Virðulegur forseti, kæru landsmenn, það vorar á Íslandi, birtir um allt, gróandinn er í algleymingi hvert sem litið er.  Það árar líka vel í samfélaginu, tekjur hins opinbera jafnt sem fyrirtækja nálgast áður óþekktar hæðir, atvinnaástand er gott.  Við þessar uppörvandi aðstæður er þó glímt við ýmis hagræn vandamál. Upp í hugann kemur fyrst hinn óstöðugi litli gjaldmiðill sem feykist um, upp og niður líkt og fiðrildi í frísklegum sunnan þyt. Hátt gengi íslensku krónunnar þessi dægrin er áhyggjuefni stjórnvalda. Afstaða þeirra til krónunnar er svipuð og hjá Don Kíkóti í baráttunni við vindmyllurnar, afneitun og veruleikafirring.  Það er ekki annað að sjá en stjórnvöld einfaldlega skorti þekkingu, framsýni eða dirfsku til að taka á þessum vanda sem liggur áfram óleystur, vanda sem einn og sér veldur landsmönnum ómældum útgjöldum.  Jafnaðarmenn boða hins vegar raunhæfa leið til hagsbóta fyrir almenning frá þeirri nauðung sem krónan veldur

Í efnahagslegu góðviðri eins og nú ríkir fer fiðringur um peningaöflin í landinu, öflin sem sitja við völd í íslensku samfélagi.  Við minnumst með hryggð þeirra stóru áfalla og niðurlægingar sem þjóðin upplifði fyrir nokkrum árum þegar þjóðarskútunni var siglt í strand. Þeim leiðangri stýrði Sjálfstæðisflokkurinn með sína ógæfulegu áhöfn.  Og enn berja þeir sér á brjóst eins og enginn sé morgundagurinn.  Loks þegar búið er að losa skútuna af strandstað og farsæl sigling hafin á ný, þá taka þeir upp gömlu sjókortin aftur og ætla vísa leiðina. Það má ekki viðgangast og því verður aðeins afstýrt,  að þessi ríkisstjórn valdastólanna víki og við taki velferðarstjórn fyrir fólkið í landinu.

Virðulegur forseti, ágætu landsmenn, ráðandi öfl telja nú hæfilega langan tíma liðinn frá hruni, að þeir peningar Íslendinga sem enn liggja í skjólum út um veröldina fái nú vinnu. Peningar sem hurfu sporlaust um nótt af landi brott með hjálp grímuklæddra manna. Nú er flest til sölu, Áfengisbúðir til einkaaðila, bankarnir, Keflavíkurflugvöllur upplögð söluvara, góð hugmynd að selja vegabúta og gera þá gjaldskylda og framhaldsskólana líka – og svo auðvitað bestu bitana úr heilbrigðisþjónustunni, nema hvað.  Allt er þetta gulltryggður bisness. Það er búið að rúlla út rauða dreglinum fyrir kaupahéðna sem bíða í röðum.  Þjóðin er ekki búin að gleyma sölunni á Símanum sem flýta átti byggingu nýs Landspítala. Muna menn ekki enn hvernig fór fyrir þeim sveitarfélögum sem létu undan frjálshyggjupésum og seldu frá sér flestar fasteignirnar til að leigja þær síðan aftur. Það átti að vera miklu hagstæðara að nýta féð til uppbyggingar en ekki vera með það bundið í eignum eins og það var orðað, það væri gamaldags. Þessi sveitarfélög lentu flest hver í fjárhagslegum háska.  Nú er sama mantran kyrjuð upp á nýtt.

Um leið og við horfum til uppbyggingar og framfara skulum við vera á varðbergi gagnvart lýðskrumi og prettum.  Minnug þess að enginn flokkur hefur kostað íslenska þjóð jafn mikið með efnahagslegum afglöpum og Sjálfstæðisflokkurinn.

Ég nefndi hér að framan að það væri uppgangur í íslensku samfélagi. Brúnin virðist létt á landsmönnum nú í sumarbyrjun, að minnsta kosti er kaupgleðin umtalsverð, það er galsi í verslun og viðskiptum. Samfélagið nýtur allt góðs af, ríkissjóður eflist og það er borð fyrir báru. Það styrkir okkar til að standa vel saman um að veita öllum þegnum brautargengi.  Og hefur ekki ríkisstjórnin skilning á því?  Á kjörum þeirra sem skildir hafa verið eftir árum saman af því að tímarnir voru svo erfiðir?  Nei, því miður og það er smán hvernig við förum að ráði okkar. Jafnaðarmenn geta ekki unað við óbreytt ástand, við heimtum að blaðinu verði snúið við strax.

Það hefur stöðugt hallað á ungar barnafjölskyldur á undanförnum árum og þeim gert erfiðara um vik að búa í haginn og ala upp börn sín, sprota framtíðarinnar við öruggar aðstæður. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar munu útgjöld til barnabóta halda áfram að dragast saman eins og í tíð fyrri ríkistjórnar. 12.000 barnafjölskyldur urðu af barnabótum á því tímabili og þeim fjölgar enn sem búa munu áfram við þrengri kost og fátækt. Við erum hálfdrættingar á við hin Norðurlöndin.

Sömu sögu er að segja um fæðingarorlof.  Stjórnarliðar hafa engan skilning á þörf fyrir átak, hvorki með hækkun á hámarksgreiðslum eða lengingu fæðingarorlofs.

Aldraðir sitja enn óbættir hjá garði og tekjulægstu hóparnir búa við kjör sem eru hrein vanvirða. Óljós vilyrði eru gefin um bragarbætur á hagsmunum öryrkja, í fyrsta lagi árið 2019.  Á meðan búa þeir við flókin, ógagnsæ réttindi, hópur sem stendur mjög höllum fæti.

Það geta allir í samfélaginu lifað við fjárhagslegt öryggi og það eiga allir okkar þegna að fá þetta tækifæri. Þetta er ekki draumsýn, við höfum efni á því.  Þetta er spurning um áherslur og forgangsröðun. Og góðir landsmenn, það skiptir máli hverjir stýra, það skiptir máli hverjir eru við stjórnvölinn.  Þeir sem nú stýra skynja því miður hvorki daginn né veginn, við hvaða kjör barnafjölskyldur, leigjendur, aldraðir eða öryrkjar búa. Skynja ekki ákall og kröfu þjóðarinnar um breytingar, jöfnuð, réttlæti og sanngirni.

Virðulegur forseti, ég trúi því að þjóðin, allir landsmenn eigi betri ríkisstjórn skilið en við búum við í dag, ríkisstjórn sem stendur við fyrirheit um átak í velferðarmálum en svíkur þau ekki. Í þeirri von að birtutíðin fram undan og útivera geri stjórnarliðum gott, að þeir nái áttum og það renni upp fyrir þeim ljósið, þá óska ég þeim og landsmönnum öllum farsældar og gleði í sumar