Eydís Inga Valsdóttir - 2. sæti

Ég heiti Eydís Inga Valsdóttir og ég gef kost á mér í 2. sæti í forvali Samfylkingarinnar í Kópavogi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Mig langar að leggja mitt af mörkum til að styrkja Kópavog sem samfélag þar sem fjölskyldur, börn og velferð eru sett í fyrsta sæti.

Ég býð mig fram vegna þess að ég tel mikilvægt að rödd þeirra sem standa í daglegu amstri og uppeldi barna á leik- og skólaaldri fái að heyrast skýrt í ákvarðanatöku sveitarfélagsins. Ég er með BA-gráðu í almennri bókmenntafræði, MA-gráðu í Norðurlandafræðum og MLIS gráðu í stafrænni upplýsingastjórnun og hef á starfsferli mínum unnið lengi að mennta- og samfélagsmálum, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Sú reynsla hefur kennt mér mikilvægi samráðs, langtímasýnar og þess að opinberar ákvarðanir byggi á þekkingu og raunverulegum þörfum fólks.

Daglegt líf fólks skiptir mig máli. Ég hef mikinn áhuga á því hvernig sveitarfélagið mótar ramma utan um líf barna, foreldra og þeirra sem sinna mikilvægustu störfum samfélagsins. Sem foreldri hef ég sjálf upplifað bæði það sem vel gengur og það sem betur má fara í þjónustu við barnafjölskyldur. Sú reynsla hefur styrkt mig í þeirri sannfæringu að sveitarfélög þurfi að setja fjölskyldur í fyrsta sæti. Þetta má ekki aðeins vera orð á blaði, heldur þarf að endurspeglast í raunverulegri forgangsröðun og ákvörðunum.

Ég legg sérstaka áherslu á menntamál, allt frá leikskólastarfi til grunnskóla og frístunda. Börn eiga að fá að blómstra í öruggu og styðjandi umhverfi þar sem fagfólk fær svigrúm og traust til að sinna starfi sínu vel. Ég vil að Kópavogur sé sveitarfélag sem laðar að sér og heldur í gott starfsfólk í leik- og grunnskólum, tryggir góðar starfsaðstæður og leggur raunverulegt vægi á gæði menntunar. Það er fjárfesting sem skilar sér margfalt til framtíðar.

Fjölskylduvæn stefna snýst einnig um velferðarkerfi sem virkar og þjónustu sem er aðgengileg þegar fólk þarf á henni að halda. Ég vil að íbúar Kópavogs geti treyst því að fá stuðning án óþarfa biðtíma og flókins kerfis, hvort sem um ræðir börn, ungmenni, foreldra eða eldra fólk.

Ég hef einnig mikinn áhuga á því hvernig við mótum bæjarumhverfi og húsnæðismál þannig að fólk ráði við að búa í Kópavogi til lengri tíma. Ungt fólk og fjölskyldur eiga að hafa raunhæfa möguleika á að setjast að og byggja upp líf sitt. Skipulag, samgöngur og nærumhverfi þurfa að taka mið af daglegu lífi fólks, tryggja umferðaröryggi gangandi og hjólandi og þannig styðja við vistvænar samgöngur.

Í mínu pólitíska starfi vil ég leggja áherslu á samráð, gagnsæi og ábyrgð. Ég trúi því að bestu lausnirnar verði til þegar hlustað er á þá sem málið varðar og ákvarðanir teknar á traustum grunni. Samfylkingin stendur fyrir jöfnuði, félagslegu réttlæti og samfélagi þar sem við öll fáum tækifæri og ég vil vinna að því að þau gildi endurspeglist skýrt í stefnu og starfi flokksins í Kópavogi.

Ég býð mig fram af einlægri sannfæringu og vilja til að hafa jákvæð áhrif. Kópavogur er góður staður til að búa á og með réttri forgangsröðun getum við gert hann enn betri.

Ég bið um þinn stuðning til að setja fjölskyldur í fyrsta sæti í Kópavogi.