Setningarræða Árna Páls

Við setningarathöfn landsfundar hvatti fráfarandi formaður, Árni Páll Árnason, félaga sína áfram og minnti þá á hvert markmið jafnaðarstefnunnar er. Hann þakkaði Katrínu Júlíusdóttur og Kristjáni Möller fyrir störf þeirra, þar sem þau munu ekki gefa kost á sér til endurkjörs í komandi kosningum. Hann minntist Guðbjarts Hannessonar, alþingismanns, sem hefði orðið 66 ára í dag.

Hann lagði áherslu á að jafnaðarmenn gætu verið stoltir af verkum sínum og að Samfylkingin hafi ávallt, óháð því hver stjórnar, breytt rétt. Verkefnin væru næg fyrir jafnaðarmenn og að verkefnið væri stærra en við, það væri dauðans alvara því það hefði lyft milljónum manna upp úr fátækt á síðastliðnum 100 árum.

 

Hér má lesa ræðuna í heild. 

 

Kæru landsfundarfulltrúar.

Ég býð ykkur velkomin til mikilvægs landsfundar. Ekki hlaupið að því að hrista aukalandsfund fram úr erminni á fáeinum vikum. Þakkir til starfsfólks og landsfundarnefndar.

Við stöndum líka á tímamótum vegna þess að framundan eru þingkosningar. Tveir af þingmönnum okkar hafa gefið það út að þeir gefi ekki kost á sér til endurkjörs, Katrín Júlíusdóttir og Kristján Möller. Og Rannveig var sæmd h verið sæmd heiðursverðlaunum Letterstedtska sjóðsins árið 2016 og fylgir þar í fótspor Gylfa Þ, Vigdísar Finnbogadóttur, Paavo Lipponen og Thorvalds Stoltenberg.

Það eru tímamót í öðrum skilningi. Í dag er fæðingardagur Guðbjarts Hannessonar. Gutti hefði orðið 66 ára í dag. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að það er ekki enn liðið ár frá því að veikindi hans komu í ljós. Ég hef saknað hans oft í umróti undanfarinna mánaða, í vissu þess að hann hefði alltaf lagt gott til, stutt við forystu í kröppum dansi og sett heildarhag framar öllu öðru.

 

Formaður rís á öldu

Það eru einungis rúmir 14 mánuðir frá síðasta landsfundi, en mér finnast þeir hafa verið afskaplega langir. Erfið staða flokksins og samstöðuleysi í okkar röðum um leiðina áfram hefur valdið því að óhjákvæmilegt var að boða til landsfundar og formannskjörs fyrr en gert hafði verið ráð fyrir. Okkur mun nú gefast færi á að stilla saman strengi og finna saman þann kraft sem nauðsynlegur er til að snúa stöðunni við.

Einn maður mun ekki breyta þessari stöðu og við skulum ekki láta okkur detta í hug að fara fram á það. Formaður rís á öldu. Þá öldu þarf flokkurinn að ákveða að skapa. Við þurfum að sameinast um þá afstöðu að við viljum vinna saman og að við teljum það skipta meiru að vinna saman en að vera sitt í hvoru lagi. Á það hefur mér þótt skorta undanfarin misseri og orðræða í þá veru að sumir flokksmenn séu of mikið svona og of mikið hinsegin til að geta verið sannir jafnaðarmenn er orðræða lítils klíkuflokks en ekki stórrar fjöldahreyfingar. Við þurfum að fagna fjölbreytileikanum.

Á kosninganótt 2013 minnti ég okkur á að flokkar verði ekki litlir við að missa fylgi, heldur við að hætta að hugsa stórt.

Og við megum ekki falla í þá gildru að hætta að taka tillit til þeirra sem eru hættir að mæta. Annars fáum við fólkið aldrei til baka.

 

Höldum okkar stefnu

Við erum í snúinni stöðu. Krafa tímans er um skýra sjálfsmynd – skýrt ídententiet. En Samfylkingin var beinlínis stofnuð til að hámarka áhrif umbótasinnaðs fólks á þróun samfélagsins og ídentítetið var þess vegna vísvitandi haft óljóst. Við vildum að allir gætu fundið sér hér stað – umhverfissinnar, femínistar, félagslega sinnað markaðshyggjufólk, fólk í verkalýðshreyfingunni, baráttufólk fyrir mannréttindum. Gamlir kratar og kommar og líka allt það fólk sem aldrei fann sig í litlum, kreddubundnum flokkum. Um allan heim er pólitíkin að verða eins og stundaglas – jaðrarnir belgjast út en miðjan skreppur saman. Við getum kosið að elta vindinn og leita út á jaðarinn, eða halda við það sem er ekki okkar og beðið þess að vindurinn snúist. Ég hallast að því síðarnefnda.

Það er nefnilega offramboð af vindhönum á sviði stjórnmálanna og Samfylkingin er margt en það eru hún ekki. Samfylkingin ein kom að öllum lykilákvörðunum sem leiddu Ísland úr hruninu. Við verðum ekki sögulaus flokkur. Við erum stolt af afrekum okkar við stjórn landsins á örlagatímum og Samfylkingin ein hefur staðið að öllum þeim ákvörðunum sem þurft hefur að taka til að koma Íslandi á réttan kjöl – hvort sem við vorum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Við sveiflumst ekki eftir gusti tíðarandans og segjum ekki eitt í dag og annað á morgun. Við þekkjum líka þau mistök sem við höfum gert, höfum gengist við þeim og erum fyrir vikið ólíklegri en aðrir til að gera þau á nýjan leik.

Það hefur engu skipt hverjir eru í stjórn. Við gerum það sem er rétt.

En við höfum líka um of barið á okkur sjálfum með hnútasvipu. Um allan hinn vestræna heim eru jafnaðarflokkar í vanda og hófsemdaröfl í vörn. Öfgarnar fitna. Það er sérkennilegt að á sama tíma og heimurinn þarf svo augljóslega á félagslegu lýðræði að halda, skuli stjórnmálahreyfingar hins félagslega lýðræðis vera í sögulegri kreppu.

Við verðum eins og systurflokkar okkar að takast á við þetta.

Stjórnmálahreyfing jafnaðarmanna mótaðist sem réttlætishreyfing fólks sem enga rödd átti. Það er engin tilviljun að kosningaréttur fátækra karla og efnaðri kvenna er 101 árs í dag og stjórnmálahreyfing jafnaðarmanna 100 ára. Það var einfaldlega engum kjósendum jafnaðarmanna til að dreifa, fyrr en kosningaréttur varð almennur. Og barátta næstu áratuga markaðist af því að ný verkalýðsstétt sótti sér réttindi. Vökulög, atvinnuleysistryggingar, almannatryggingar og almenn skólaganga. Orlof og lög um jöfn laun karla og kvenna. Í öllum þessara mála var hægt að búa til stóra hreyfingu sem hélt, því svörin voru annaðhvort já eða nei og hagsmunirnir eðlislíkir. Viltu atvinnuleysitryggingu eða ekki. Það var auðvelt að svara þeirri spurningu.

En eftir að öll þessi uppbygging var í höfn breyttist áhersla jafnaðarmanna á að vera hið ábyrga stjórnarafl. Og einhvers staðar á þeirri leið hættum við að láta okkur dreyma um framtíðina og sættum okkur við að forgangsraða með öðrum hætti innan gildandi kerfis, án grundvallarbreytinga. Kannski af því að við höfðum eins og danskir félagar okkar segja „sejret os ihjel“ – sigrað okkur til dauðs.

Og ekki misskilja mig. Árangur síðustu aldar er ótrúlegur – hér á landi sem um allan heim. Og við erum vissulega fórnarlömb eigin velgengni og höfum sigrað okkur til dauðs. Jafnaðarhreyfingin hefur alltaf verið alþjóðleg hreyfing. Baráttan fyrir auknum milliríkjaviðskiptum, afnámi tollmúra og aukinni velsæld fólks  í fátækari löndum hefur verið drifin áfram af jafnaðarmönnum, allt frá tíma Willy Brandt og Gro Harlem Brundtland og yfir til Tony Blair og Gerhard Schröder. Stefna jafnaðarmanna hefur lyft milljörðum manna úr algerri örbirgð. Það afrakstur þessarar stefnu sem skýrir fyrirlestra sænska prófessorsins Hans Rosling um minni misskiptingu og fækkun þeirra sem eru í algerri fátækt í heiminum. Þetta er árangur jafnaðarstefnunnar um heim allan.

En þessi stefna hefur skapað alla þá átakapunkta sem valda hreyfingunni vandræðum í dag. Ófaglærð störf færast til landa þar sem vinnuaflið er ódýrara og verkafólkið á Vesturlöndum situr eftir með laun sem standa í stað áratugum saman, ef það er svo heppið að halda vinnunni. Sama alþjóðavæðing opnar hin vestrænu lönd fyrir erlendu vinnuafli sem keppir við þá sem fyrir eru og dregur úr möguleikum verkalýðshreyfingarinnar til að halda uppi taxtalaunum. Félagsleg undirboð verða algengari. Nýjar og nýjar kynslóðir menntast og sjá tækifæri í alþjóðavæðingunni en ófaglært verkafólk sér hana í vaxandi mæli sem ógn. Við þessar aðstæður verður einfaldlega erfiðara og erfiðara að viðhalda því bandalagi um gott samfélag sem jafnaðarflokkarnir hafa alla tíð reitt sig á, nú þegar hagsmunir og afkomuáhyggjur toga í ólíkar áttir.

Við höfum fagnað tækniþróun og séð hvernig hún hefur útrýmt einhæfum og slítandi störfum, aukið framleiðni og bætt lífskjör. En hún hefur líka aukið vinnuáþjánina, þvert á það sem við hugðum. Stór hluti þjóðarinnar vinnur mun lengri vinnudag nú en fyrir 30 árum, vegna þess að snjallsímar og tölvur skapa kröfu um tafarlaus svör og viðveru allan sólarhringinn. Fyrirheit Karls Marx um að tæknin myndi frelsa okkur frá vinnunni virðist að þessu leyti fjarlægara en nokkru sinni. Allra handanna vefsíður hafa sprottið upp í Bretlandi og Bandaríkjunum sem miðla vinnuafli fólks, en það fólk nýtur engra réttinda – er réttlaust daglaunafólk sem aðeins fær það sem dagurinn gefur, rétt eins og karlarnir sem biðu eftir uppskipunarvinnu milli vonar og ótta á höfninni fyrir stríð.

Bílstjóri hjá Über í Bandaríkjunum fær 17$ á tímann og engar tryggingar, orlof eða veikindarétt. Til samanburðar fær starfsmaður hjá General Motors sem er í verkalýðsfélagi 28$ á tímann og sjúkratryggingu. Öll þessi tækniþróun og framþróun hefur dregið úr þeim ávinningi sem samtakamáttur launafólks hefur skapað, grafið undan almennum réttindum og tækifærum fyrir alla og breytt okkur öllum í ótal litlar smábátaútgerðir þar sem hver rær í kapp við annan.

Þegar jafnaðarmenn urðu sáttir við að forgangsraða innan ríkjandi kerfis og hættu að láta sig dreyma, gengumst við líka inn á hefðbundna mælikvarða hagkvæmni og létum excel-skjalið ráða frekar en hjartað. Þegar ég var lítill strákur og kom úr sveitinni í heimsókn til afa og ömmu í Norðurmýrinni sá ég mann með Downs-heilkenni sem sópaði göturnar. Ég fylgdist með honum árum saman og hann sinnti starfi sínu vel og var hluti af samfélaginu. Engin slík störf eru í boði í dag og vélar sópa göturnar. Svo lengi sem borgin tímir því.

Allt er boðið út og rekið með hagkvæmum hætti. Við gengumst líka inn á að fyrirtæki ættu bara að skila hagnaði og ekki axla neinar samfélagslegar skyldur. Ekkert væri athugavert við að bankar högnuðust á að sjúga fé frá fólki og verðmætaskapandi fyrirtækjum, en sköpuðu ekkert nýtt eða gott. Af hverju skiptir ekki lengur máli að gera eitthvað gott?

Og á sama tíma hefur kapítalisminn haldið áfram að þróast. Og hann hefur tekið stökk vegna þeirrar alþjóðavæðingar og tækniframfara sem við lögðum grunninn að. Hann mun halda áfram að þróast og deilihagkerfið er gott dæmi um það. Allt sem við sjáum í dag staðfestir hætturnar við kapítalisma sem ekki býr við eðlileg mörk: Mansal í ferðaþjónustu, of mikill ágangur á sameiginleg náttúrugæði, arður af auðlindum sem enda í vösum fárra, auðlegð sem skapast af því að fá allt gefins frá vildarvinum á valdastólum. Við verðum að eiga svör við því hvernig við viljum sjá framtíðarsamfélagið.

Tíðarandinn er áhyggjulaus og upplýst fólk í dag er þess fullvisst að unnir sigrar séu svo óumbreytanlegir að ekkert sé að óttast og að réttindin séu jafn ósnertanleg og hversdagsleg og Esjan. En hverjum hefði dottið í hug fyrir tuttugu árum síðan að það fyndust þrælar í kjallarakompu í Vík í Mýrdal á 100 ára afmælisári Alþýðusambandsins?

Hverjum hefði dottið í hug að 50 árum eftir að Gylfi Þ. kom námslánakerfinu á myndi ríkisstjórn leggja til að breyta kerfinu á þann veg að best stæðu nemendurnir fengju styrk, en þeir lakar settu þyrftu að greiða fyrir styrk hinna með ofurvöxtum? Að menn myndu loka framhaldsskólanum fyrir fólki yfir 25 ára aldri? Hverjum hefði dottið í hug fyrir aldarfjórðungi að örfáum árum síðar yrði verkamannabústaðakerfið afhent þeim sem þar bjuggu þá og það tæki 17 ár að koma á laggirnar til vísi að nýju kerfi? Engum.

Árangurinn er nefnilega ekki alltaf varanlegur. Stóra spurningin er: Hvernig ætlum við að tryggja ávinninginn af velferð fyrir alla sem var búin til með almennum samtakamætti, á tímum þegar einstaklingshyggja vex, færri vilja taka þátt í verkalýðsfélögum og skuldbindingargildi almennra kjarasamninga minnkar? Þegar allir vilja vera eigin herrar og helst ekki bindast samtökum nema um það sem hæst ber í það og það skiptið? Og helst bara skrifa undir áskorun á Facebook? Svörin geta ekki falist í að standa bara vörð um það sem er. Það höfum við gert í áratugi og þess vegna er tækni og tíðarandinn að taka framúr okkur.

Góðir landsfundarfulltrúar.

Nú á eftir læt ég af formennsku í Samfylkingunni. Ég veit að sum ykkar eru ósátt við það, en líka að einhver ykkar eru dauðfegin að vera laus við mig. Þannig er það nú bara alltaf. Það eru nú rétt níu ár frá því ég var kjörinn á þing og ég hef á þessum tíma notið gríðarlegs trausts og trúnaðar ykkar. Fyrir það þakka ég í dag. Ég hef frá hruni – í nærri átta ár – varið flestum vökustundum í glímuna við stærstu spurningar samtímans, vegna þess að þið settuð mig til þeirra verka.

Samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og leiðir til að forðast að ríkisvæða tjónið af hruninu, þróun greiðsluaðlögunar og margháttaðra annarra leiða til að lækka skulda heimila og fyrirtækja á kostnað kröfuhafa en á kostnað ekki almennings, viðureign við fordæmalaust atvinnuleysi og þróun úrræða fyrir ungt atvinnulaust fólk, uppbygging hjúkrunarheimila, leit að nýjum húsnæðislausnum, óhjákvæmilegur og sársaukafullur niðurskurður velferðarútgjalda, þróun aðgerðaáætlunar um afnám hafta, leitin að rökum sem gætu tryggt okkur sigur í Icesave og grunnur að endurskipulagningu fjármálakerfis og svo síðustu misserin þátttaka í leitinni að réttri leið til að glíma við slitabú fallinna banka, baráttan gegn klíkuveldi í viðskiptalífinu og baráttan fyrir að halda á lífi aðildarumsókn Íslands á evrópskum vettvangi. Er hægt að biðja um merkilegri viðfangsefni? Gæfa mín hefur verið að lifa tíma í stjórnmálanunum þegar stjórnmál skipta öllu máli. Það verður enginn samur eftir svona lífsreynslu og ég þakka fyrir hana af heilum hug.

Ég þakka fyrir formannstíð mína og þá sérstaklega mínu nánasta samstarfsfólki, ráðgjöfum og starfsfólki flokksins. Þegar ég horfi til baka yfir þessi rúmu þrjú ár ber hæst viðsnúninginn eftir kosningaósigurinn 2013 og þá árangursríku uppbyggingu sem við fórum í fram til sveitarstjórnarkosninganna ári seinna. Þá þvældist ég um allt land og fundaði með ykkur öllum vítt og breitt. Þessi samskipti eru það skemmtilegasta við starf formanns Samfylkingarinnar – að hitta fólkið okkar vítt og breitt um land. Á þessum þremur árum telst mér til að ég hafi fundað í yfir 50 þéttbýlisstöðum og í mörgum þeirra margoft. Eftir sitja margar minningar og sögur sem ég mun geyma með mér alla mína ævi.

Og minnisstæðustu sagði mér Stefán Þorleifsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi okkar í Neskaupsstað á fundi í fyrra. Hann stóð þá upp eins og alltaf á fundum og tók til máls. Það er kannski ekki frásögufærandi nema að hann fagnar 100 ára afmæli í haust og fer enn á skíði og mætir á fundi. Hann sagði söguna eitthvað á þessa leið:

Þessi saga hefur komið aftur og aftur upp í huga minn síðan.

Þegar ég sá skýrslu Unicef sem sagði að 6.000 börn sem líða efnislegan skort og hundruð barna sem líða mikinn skort. Þegar ég hugsa til barnanna í Bangla Desh sem búa til fötin okkar og þegar ég las bók Åsne Seierstad um fjöldamorðin í Útey. Um barn sem hungrar eftir ást, athygli, vinum og félagslegum stuðningi.

Og öll okkar áhersla á að vera á að búa til tækifæri. Endalaus tækifæri. Ekkert hefur gefið mér jafn mikla gleði og að vinna að því að brjóta niður einangrun ungmenna sem voru án atvinnu og án vonar. Þess vegna höfum við staðið gegn breytingum á framhaldsskólanum í þá átt að gera hann að elítuskóla.

Því við þurfum öll tækifæri.

Erindi okkar miklu stærra en við sjálf – það snýst ekki um okkur. Stefna okkar og erindi er dauðans alvara.