Blaðamannafundur um réttlátar almannatryggingar
Formenn og talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi, Oddný G. Harðardóttir, Katrín Jakobsdóttir, Óttarr Proppé og Birgitta Jónsdóttir boðuðu til blaðamannafundar í Alþingishúsinu kl 14.00 í dag.
Tilefni fundarins voru sameiginlegar tillögur stjórnarandstöðunnar vegna breytinga á lögum um almannatryggingar.
Við í stjórnarandstöðunni lýstum í dag yfir verulegum vonbrigðum með þá leið sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa valið til að hækka greiðslur almannatrygginga.
Við lögðum til réttlátari leið.
Hækkunin fylgir ekki þróun lágmarkslauna og tryggir ekki öllum hópnum 300 þúsund krónur, því bara hluti aldraðra og öryrkja fær hækkanirnar. Eldri borgarar og öryrkjar í sambúð eru skildir eftir og tekjuskerðingar aukast hjá ákveðnum hópum. Um það verður engin sátt.
Við leggjum til réttlátari leið og hækkun ellilífeyris og lífeyris öryrkja um 13,4%. Þá fá þeir sem eru í sambúð 241.300 kr. á mánuði eða um 13.400 kr. meira á mánuði miðað við tillögur ríkisstjórnarinnar.
Eldri borgari sem býr einn fær 280.000 kr. eins og í tillögum ríkisstjórnarinnar en hlutur heimilisuppbótarinnar í þeirri greiðslu er minni.
Fólk með örorku, sem býr eitt fær 280.000 kr. eins og í tillögum ríkisstjórnarinnar en allir bótaflokkar hækka um 13,4% og króna á móti krónu skerðingar aukast því ekki með þessari leið og fólk fær því fleiri krónur í vasann.
Þannig veldur leið minni hlutans mun minni skerðingu vegna tekna hjá öryrkjum sem búa einir en leið ríkisstjórnarinnar og öryrkjar í sambúð fá hærri greiðslur.