Vonbrigði að ekki hafi orðið af myndun umbótastjórnar

Samfylkingin er leið yfir því að slitnað hafi upp úr viðræðum fimm flokka um myndun ríkisstjórnar. Við töldum góðan möguleika á að þessir flokkar gætu myndað umbótastjórn þar sem í senn yrði unnið að endurreisn heilbrigðis- og menntakerfis og nauðsynlegra fjárfestinga í innviðum ásamt því að koma á kerfisbreytingum í landbúnaði og sjávarútvegi. Við myndum líka vinna að umbóta- og framfaramálum s.s. loftslagsstefnu, atvinnumálum, auknu jafnrétti og nýrri stjórnarskrá, svo fátt eitt sé nefnt.

Við teljum vel mögulegt að brúa bilið á milli flokkanna og lögðum til ýmsar hugmyndir um hvernig mætti fjármagna brýn verkefni. Okkur finnst mikill árangur hafa náðst í viðræðum milli þessara fimm flokka, bæði undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur og Birgittu Jónsdóttur. Við erum ánægð með samvinnuna við frábært fólk í öllum þessum flokkum og hlökkum til að taka upp þráðinn að nýju, reynist vilji til þess hjá öðrum.

Yfirlýsing frá þingflokki Samfylkingarinnar sem Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sendi út 13. desember 2016 þegar ljóst var að ekki yrði af formlegri stjórnarmyndunarviðræðum Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.