Heiða Björg nýr varaformaður Samfylkingarinnar
Heiða Björg Hilmisdóttir var kjörin varaformaður flokksins á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Heiða Björg var ein í framboði og var því sjálfkjörin.
Í þakkarávarpi sínu kallaði Heiða Björg eftir virkri þátttöku flokksmanna í því sóknarferli sem framundan er í Samfylkingunni í aðdraganda komandi sveitarstjórnarkosninga. Hún minnti líka á að þrátt fyrir sjálfsögð skoðanaskipti og átök um menn og málefni yrðu menn að hlúa að þeim þáttum sem sameinuðu jafnaðarmenn í starfi Samfylkingarinnar og taka nýjum liðsmönnum opnum örmum:
”Mér finnst mikilvægt að við höfum alltaf í huga, að Samfylkingin þarf að vera opinn flokkur sem tekur vel á móti nýju fólki og veitir þeim sem vilja, tækifæri og felur þeim ábyrgð. Þann kjarna er mikilvægt að við varðveitum og hlúum að, í því sóknarferli sem er framundan”.
Heiða Björg er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík, fyrrverandi formaður kvennahreyfingar Samfylkingarinnar og formaður framkvæmdastjórnar flokksins frá síðasta landsfundi. Áður en Heiða Björg tók sæti í borgarstjórn starfaði hún sem deildarstjóri eldhúss og matsala á Landspítala.
Heiða Björg er formaður ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkur, formaður stjórnar Strætó bs. og situr í stjórn Sambands Íslenskra Sveitarfélaga og borgarráði Reykjavíkur, f.h. Samfylkingarinnar. Hún er varaformaður MS-félagsins, formaður Norrænu MS-samtakanna og er í fulltrúaráði evrópsku næringarráðgjafasamtakanna sem f.v. formaður Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands. Hún hefur víða fjallað um mat og næringu í fjölmiðlum, kennt í HÍ, gefið út matreiðslubækur og sinnt markskonar störfum í gegnum árin, meðal annars ráðgjöf, afgreiðslu og starfað við sauðburð, heyskap og mjaltir.
Heiða Björg er fædd á Akureyri árið 1971, en hefur að mestu búið í Reykjavík síðustu áratugi. Hún er með MBA gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík, diploma í Jákvæðri sálfræði frá Háskóla Ísland og M.Sc. gráðu í næringarrekstrarfræði frá háskólanum í Gautaborg. Heiða Björg er gift Hrannari Birni Arnarssyni og eiga þau 4 börn, Særós Mist fædda 1991, Hilmi Jökul fæddan 1998, Sólkötlu Þöll fædda 2006 og Ísold Emblu Ögn fædda 2008.
Nnánari upplýsingar um Heiðu Björg má nálgast hér.
Heiða á Facebook
Heiða á Twitter