Hvernig endar þetta?

Fyrir stuttu sat ég í bíl með föður mínum og ræddi við hann um hefðir og venjur fjölskyldunnar. Sumar þeirra finnst mér undarlegar og ég fer ekkert leynt með það. Ég hafði meira að segja orð á því að í framtíðinni myndi ég breyta þessu á mínu heimili! Pabbi hafði ekki mikla trú á þessu og sagði að lokum: „Þú gerir þetta eins og fyrir þér hefur verið haft, það endar alltaf þannig.“

Það endar alltaf þannig.

Ég svaraði ekki en innst inni vissi ég að líklegast hefði hann á réttu að standa. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft, eins og frægt er. Því lengra sem líður frá þessum samskiptum okkar þeim mun meira hugsa ég um þetta. Á síðustu dögum hefur hugmyndin þó þróast aðeins. Hvað er það sem Ísland hefur fyrir börnunum sínum? Læra börn Íslands einhverja vitleysu í dag?

Lítum á stöðu ungs fólks á Íslandi. Margt ungt fólk sér ekki fram á að geta flutt að heiman vegna aðstæðna á fasteigna- og leigumarkaði. Þetta er óviðunandi ástand sem þarf að finna lausnir á, hvort sem það eru markaðslausnir, aukin bygging félagslegra íbúða, aukin félagsleg aðstoð, breyting á fyrirkomulagi vaxtabóta eða aukið framboð á íbúðarhúsnæði. Lausnirnar þurfa bara að virka.

Kaupmáttur 16-19 ára fólks hefur farið minnkandi og ekki virðist staðan ætla að batna. Kjarasamningar SA kveða á um að 18 og 19 ára unglingar (fullorðnir einstaklingar) fái 95% grunnlaun tvítugs fólks. Þetta bætir ekki stöðu þeirra. Ákvæði um 95% grunnlaun 48 ára og 49 ára fólks félli ekki jafnvel í kramið hjá samninganefndum og þetta, þó ákvæðin séu hin sömu í grunninn.

Skólafólk er mestmegnis ungt fólk. Einungis á grundvelli þess er næstum hægt að fullyrða að ástandið í skólakerfinu okkar sé ekki til fyrirmyndar. Í grunnskólunum er gríðarlegt álag á kennurum og það ásamt lágum launum þeirra bitnar á gæðum menntunarinnar. Margir framhaldsskólar halda að sér höndum vegna fjárskorts, sem bitnar einna helst á iðnnámi og verklegum greinum. Í þokkabót hefur fólki eldra en 25 ára verið gert mjög erfitt fyrir að nema í framhaldsskólum. Í háskólunum er ástandið ekki gott heldur. Rektor Háskóla Íslands telur ekki ólíklegt að taka þurfi upp skólagjöld eða fækka námsleiðum. Bjarni Benediktsson sagði ríkisstofnunum að hætta að væla og fyrrverandi menntamálaráðherra sagði PISA niðurstöður íslenskra grunnskólabarna slæmar því prófið mælir ekki sköpun og félagsgreind meðal annars. Sami maður vildi breyta námslánakerfinu svo fólk sækti í „arðbært nám“ og fjársvelti Listaháskólann í sinni tíð sem menntamálaráðherra. Sköpunargáfan skipti hann ekki meira máli en það. Fjárfestum í menntun unga fólksins okkar, það er arðbær fjárfesting.

Ég þori ekki að spá fyrir um hvernig fer ef mín kynslóð gerir eins og fyrir henni hefur verið haft. Ég væri að minnsta kosti ekki til í að vera tvítugur árið 2040 ef svo fer. Bæta þarf stöðu ungs fólks svo það vilji vera áfram á Íslandi. Af hverju ætti maður sem ekki getur sótt sér þá menntun sem hann vill, býr við lakari lífskjör en aðrir á landinu og glímir við erfiða fasteignamarkaði að vilja búa á Íslandi?

Gerum unga fólkinu okkar kleift að koma þaki yfir höfuð sér. Styrkjum menntakerfið okkar svo fólk allsstaðar á landinu geti sótt sér háskólagráður, stúdentspróf og hvers kyns iðnmenntun. Eflum nýsköpun til að tryggja framfarir og atvinnumöguleika til framtíðar. Það liggur í augum uppi að það stofnar enginn fyrirtæki sem sér menntuðu fólki fyrir vinnu ef það er ekki til menntað fólk til að vinna þau störf. Menntun er grundvöllur nýsköpunar, sem stuðlar að tækniframförum og hagvexti.

Tökum á þessum málum strax, svo það verði ekki eðlilegt að staða ungs fólks á Íslandi sé alltaf léleg. Annars eigum við á hættu að missa það úr landi og þá er enginn eftir til að halda hér hagkerfinu gangandi.

Marinó Örn Ólafsson, háskólanemi og ungur jafnaðarmaður.