Störf þingflokksins vikuna 13. til 17. febrúar

Við í þingflokki jafnaðarmanna á Alþingi létum til okkar taka í kjördæmavikunni 13. – 17. febrúar 2017 eins og við var að búast.
Við ferðuðumst hvert í sínu kjördæmi um langan veg, ýmist ein og sér eða með hinum þingmönnum kjördæmanna. Við ræddum við sveitarstjórnarfólk um það sem á þeim brennur. Við ræddum við forstöðumenn og starfsmenn stofnana og fyrirtækja en einnig við fólk á förnum vegi. Upplýsingarnar sem við berum með okkur inn í þingstörfin frá kjördæmavikunni eru verðmætar og munu sannarlega nýtast vel.
Fjölmiðlar höfðu samband við okkur öll og óskuðu eftir viðtölum og þátttöku í útvarps- og sjónvarpsþáttum. Guðjón S. Brjánsson var gestur morgunútvarpsins á þriðjudaginn og ræddi þar þingsályktunartillögu okkar um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum. Guðjón er fyrsti flutningsmaður þessarar mikilvægu tillögu en hún var flutt á síðasta þingi og þá var fyrsti flutningsmaður Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Við vonum að tillagan fari hratt og örugglega í gegnum þingið enda mikil þörf á að sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum sé aðgengileg og nemendum að kostnaðarlausu. Hér má hlusta á viðtalið.
Sjálf var ég í Vikulokunum á Rás1 og ræddi sjómannaverkfallið og stjórnmálaástandið í heiminum og forseta Bandaríkjanna í því sambandi. Hér eru Vikulokin.
Ég var líka í Víglínunni á Stöð2 á laugardaginn og ræddi þar sjómannaverkfallið, boðaða sölu á bönkunum og jafnrétti kynjanna. Hér er Víglínan.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar var í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni og ræddi þar sjómannadeiluna, skatta og vegtolla. Hér má hlusta á umræðuna um skatta og sjómannaverkfall og hér um vegtolla.
Næsta vika í þinginu hefst á þriðjudaginn með óundirbúnum fyrirspurnartíma við ráðherra og umræðum í kjölfarið við forsætisráðherra um skýrslurnar sem hann ákvað að halda fyrir sig fram yfir kosningar og stjórnarmyndunarviðræður. Skýrslurnar eru um tvö stór mál; um niðurgreiðslu húsnæðislána og eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Forsætisráðherra þarf að koma með trúverðuga skýringu á þessum drætti á birtingunni. Önnur skýrslan var um málið sem varð til þess að ríkisstjórnin náði völdum og hin um það sem varð henni að falli.
Góðar stundir! Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar