Störf þingflokksins vikuna 20. - 24. febrúar
Við í þingflokki jafnaðarmanna á Alþingi létum til okkar taka í vikunni 20. – 24. febrúar 2017 eins og við var að búast.
Vikan hófst á degi sem lagður var undir fundi þingflokka. Þar skipulögðum við starfið fram undan og skiptum með okkur verkum.
Í vikunni mælti Guðjón S. Brjánsson fyrir mjög mikilvægu máli um þjónustu við einstaklinga með heilabilun. Okkur vantar sárlega stefnu í þessu máli og erum eftirbátar hinna norrænu ríkjanna hvað þetta varðar. Þekking og reynsla Guðjóns nýttist vel við samningu tillögunnar og hér má hlusta á framsögu hans í málinu.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar spurði forsætisráðherra út í fylgi við ríkisstjórnina en kannanir sýna að sögulega fáir styðja ríkisstjórnina á fyrstu vikum hennar. Forsætisráðherra var ekkert sérstaklega kátur í svörunum enda var málflutningur Loga beittur og rökfastur eins og sjá má hér.
Logi spurði líka heilbrigðisráðherra út í rekstur hjúkrunarheimila. Skortur er á heildarstefnu í þeim málaflokki og það er alvarlegt þegar að litið er til aldursskiptingar þjóðarinnar. Hér eru samskiptin og ljóst er að heilbrigðisráðherra þarf að leggja í vinnu við stefnumótun í málaflokknum. Við værum meira en tilbúin til að leggja honum lið í þeim efnum.
Við höldum áfram að leggja fram þingmál. Í vikunni var máli dreift um opna málaskrá ráðuneyta. Hugmyndin kviknaði þegar að ég var að ræða við forsætisráðherra um drátt á birtingu skýrslanna umtöluðu um niðurgreiðslu húsnæðislána og eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Njörður Sigurðsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hveragerði hafði samband við mig og lagði til lausn sem væri opin málaskrá ráðuneyta. Þá gætu ráðherrar ekki leynt gögnum sem varða hag almennings. Ég bað hann um að hjálpa mér við að búa til málið og það gerði hann. Nú er það tilbúið og þið getið skoðað það hér. Þetta er skólabókardæmi um hvernig grasrót flokksins getur sem best unnið með þingmönnum.
Á heimasíðu Samfylkingarinnar www.xs.is er nú komið yfirlit yfir öll þingmálin sem við höfum lagt fram á þessu þingi. Hér er slóðin.
Við endurflytjum nokkur mál frá fyrrum þingmönnum Samfylkingarinnar. Málin sem við höfum lagt fram að nýju þar sem Valgerður Bjarnadóttir var áður fyrsti flutningsmaður, hafa vakið athygli fjölmiðla. Hér má heyra umfjöllun í morgunútvarpinu á RÚV um frumvarpið sem gerir ráðherrum kleift að segja af sér þingmennsku á meðan að þeir eru ráðherrar og kalla inn varaþingmenn. Viðtalið hefst eftir 25. mínútu. Og hér er umfjöllun í hádegisfréttum Stöðvar2 um frumvarpið um Þjóðhagsstofnun.
Við tókum þátt í umræðum um mörg mál, s.s. um skýrslurnar um niðurgreiðslu húsnæðislána og eignir Íslendinga á aflandssvæðum, um æskulýðsstarf og samfélagsþátttöku ungs fólks, um húsnæðismál, bankamál, gjaldtöku af ferðamönnum, heilbrigðismál og margt fleira.
Spennandi vika er handan við hornið og hefst með sérstökum umræðum um eignandastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum að minni beiðni við fjármála- og efnahagsráðherra. Þar verður fjallað um hvernig framtíðarskipulag bankakerfisins ætti að vera.
Góðar stundir! Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar