Vilja veita almenningi rafrænan aðgang að gögnum

Samfylkingin lagði í dag fram þingsályktunartillögu um að almenningur fái rafrænan aðgang að opinberum gögnum. Markmið tillögunnar er að auka gagnsæi stjórnsýslunnar, veita aðhald og skapa traust um úrlausn verkefna hins opinbera.

Ályktunin felur forsætisráðherra að gera „nauðsynlegar ráðstafanir svo unnt verði að veita almenningi rafrænan aðgang að málaskrám og gögnum ráðuneyta“. Í greinargerð með tillögunni segir að unnt sé að líta til Noregs til fyrirmyndar um birtingu málaskráa á vefnum „en frá 2010 hefur norska ríkið birt málaskrár frá á annað hundrað ríkisstofnunum á vefnum www.oep.no (Offentlig elektronisk postjournal). Síðan vefurinn var tekinn í notkun hafa norsk stjórnvöld birt þar upplýsingar um u.þ.b. 20 milljónir skjala sem hafa orðið til eða borist við úrlausn mála,“ segir í greinargerðinni.

Þingmenn úr Pírötum og Vinstri grænum eru meðflutningsmenn tillögunnar.