Í vikulokin

Við í þingflokki jafnaðarmanna á Alþingi létum til okkar taka dagana 6. mars – 13. mars 2017 eins og við var að búast.
Nú er nefndarvika í þinginu og þingnefndir sitja að störfum og engir þingfundir haldnir. Gerð var undantekning á mánudaginn þegar að fjármála- og efnahagsráðherra skilaði þinginu munnlega skýrslu um afnám gjaldeyrishafta. Frá því að gjaldeyrishöftin voru sett hefur verið stefnt að því að aflétta þeim. Áætlun var gerð árið 2011, þegar Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, var efnahagsráðherra og unnið var áfram með þá áætlun í tíð síðustu ríkisstjórnar. Höftin voru sett á til að verja kjör almennings. Það var nauðsynlegt að gera í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Nú þarf að tryggja að afnám þeirra komi ekki niður á kjörum almennings.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar fór yfir málið í sinni ræðu og endaði á góðri tilvitnun í söguna af Loka Laufeyjarsyni og afkvæmum hans. Þegar að ásum var farið að standa ógn af afkvæminu Fenrisúlfi freistuðu þeir þess að binda hann, fyrst með fjötrinum Læðingi en síðan með Dróma. Ræða Loga endar á þessum orðum: „Íslensk stjórnvöld hafa lengi reynt að koma böndum á óstöðugleikann, spunnið sína útgáfu af Læðingi og Dróma. Þeir fjötrar hafa ekki haldið og óstöðugleikinn hefur reglulega valdið miklum búsifjum, ekki síst hjá launafólki. Nú er spurning hvernig tekst með nýrri peningastefnu að halda krónunni stöðugri, hvort við munum leita í smiðju dverganna og nota dyn kattarins, skegg konunnar, rót bjargsins, sinar bjarnarins, anda fisksins og hráka fuglsins. Eða munum við jafnvel komast að því að íslensku efnahagslífi nýttist best að nota aðra mynt?“ Hér er ræðan í heild.
Í minni ræðu fagnaði ég því að málinu sé lokið með samningum en fór einnig yfir þær spurningar og áhættu sem við stöndum frammi fyrir í íslensku efnahagslífi. Áhættan felst ekki aðeins í áhrifum af losun hafta heldur eru stærstu áhættuþættirnir ásamt krónunni þróun ferðaþjónustunnar og húsnæðismarkaðarins. Hér er ræðan mín.
Guðjón S. Brjánsson fékk svör frá heilbrigðisráðherra um styttingu biðlista vegna liðskiptaaðgerða, hjartaþræðinga og augnaðgerða. Svörin eru athyglisverð og þau má skoða hér.
Logi spurði heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma m.a. um mikilvægt samspil samgangna og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Hér eru spurningar Loga og svör ráðherrans.
Ég spurði fjármála- og efnahagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma um þróun bankakerfisins, sölu banka til vogunarsjóða og reglur um hverjir mættu eiga banka. Svörin voru loðin og óljós.
Guðjón vakti athygli á afar mikilvægu hagsmunamáli neytenda sem er gjaldtaka fjármálafyrirtækja. Hér er ræðan og þessu máli þarf að fylgja eftir.
Logi var málshefjandi í sérstakri umræðu um það sem fram kemur um menntamál í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Menntamálaráðherra svaraði spurningum og allir flokkar tóku þátt í þessari mikilvægu umræðu sem sannarlega er þess virði að hlusta á hér.
Við tókum þátt í umræðum um alþjóðlegan baráttudag kvenna, stöðu fanga, þolmörk ferðamannastaða, skapandi greinar og getnaðarvarnir og hugvit svo eitthvað sé nefnt. Ég læt fylgja slóð á ræðu Loga um afnám lágmarksútsvars hjá sveitarfélögum. Hann vandar þeirri hugmynd ekki kveðjurnar.
Píratar eru með þátt á ÍNN sem heitir Strandhögg. Í gærkvöldi var frumsýndur þáttur þar sem Logi var í settinu. Endursýning verður af og til út vikuna og síðan er hægt að horfa á netinu.
Handan við hornið eru nýjar áskoranir fyrir okkur jafnaðarmenn um allt land.
Góðar stundir! Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar