Ekki er kyn þó keraldið leki

Fyrir stuttu átti ég í samtali um kynjakvóta við tvo samnememendur mína, sem kváðust báðir vera femínistar. Pistill þessi gengur ekki út á að úthúða samnemendum mínum og skoðunum þeirra, en mér finnst viðhorf þeirra varpa ljósi á það sem heldur aftur af jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

„Ég er ekki hlynntur kynjakvóta því ég dæmi sjálfur ekki fólk út frá kyni“, útskýrði annar þeirra fyrir mér og hinn neminn tók undir með honum: „Já, ég vil ekki fá eitthvað starf bara af því að ég er kona.“

Báðar þessar röksemdarfærslur skutu mér skelk í bringu, því að mínu mati rangtúlka þær það sem kynjakvóti gengur út á. Fyrir það fyrsta er hættulegt að afsala sér sinni samfélagslegu ábyrgð með því að segjast ekki vera hluti af vandamálinu. Í öðru lagi er jafnréttisbarátta kynjanna ekki háð til þess að gera konum greiða. Kynjakvóti er ætlaður til þess að kynin standi jöfn að vígi.

Mikilvægt er að fólk átti sig á að samfélagið mótar okkur, og að sama skapi, mótum við samfélagið. Því getur reynst nauðsynlegt að beita róttækum aðgerðum til að brjóta upp þau samfélagslegu viðhorf sem nú ríkja. Lengi vel hafa konur verið undirskipaðar körlum og ef við viljum koma á kynjajafnrétti verðum við að beita aðgerðum á borð við kynjakvóta.

Það dugar ekki að loka augum og eyrum og miða allt út frá eigin reynsluheimi og skoðunum. Stærra samhengið er það sem skiptir máli. Viljir þú að meiri jöfnuður og meira umburðarlyndi ríki í samfélaginu þarftu að vera tilbúinn að leggja hönd á plóg. Okkur ber að skapa ný norm og viðhorf fyrir komandi kynslóðir.

Því þurfum við á kynjakvóta að halda. Hann er nauðsynlegur þar til við höfum normalíserað jöfnuð kynjanna í áhrifa-og valdastöðum.

Nikólína Hildur Sveinsdóttir, ungur jafnaðarmaður