Niðurskurður og svikin loforð í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu 5 ára var kynnt á dögunum. Þingmenn ríkisstjórnarinnar stæra sig af 20% hækkun framlaga til heilbrigðiskerfisins, aukna áherslu á menntamál og fleira. En hvað er á bak við glansmyndina sem ríkisstjórnin hefur kynnt almenningi? Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, krufði ríkisfjármálaáætlunina.

Í heilbrigðismálunum er ekki allt sem sýnist. Stjórnarliðar tala um 20% aukningu til málaflokksins, en það hlutfall er fengið með því að taka byggingu nýs Landspítala inn í reikninginn. Oddný bendir á að framlög til reksturs sjúkrahúsþjónustu hækka aðeins um 338 milljónir milli 2017 og 2018, eða um 0,4%. Þessi hækkun heldur ekki einu sinni í við fjölgun sjúklinga, sem ein og sér hækkar rekstrargjöld sjúkrahúsanna um 2% árlega. Því er ljóst að skera þarf niður á sjúkrahúsunum á næsta ári.

Menntamálin eru greinilega ekki í forgangi hjá hægristjórninni. Háskólarnir hækka um 660 milljónir á milli áranna 2017 og 2018 eða um 1,6%. Háskólarnir telja sig þó þurfa a.m.k. 2.000 milljónir sem áfanga upp í betri stöðu. Framhaldsskólarnir hækka aðeins um 55 milljónir eða tæp 0,2% og lækka mikið til 2022. Sparnaðurinn við styttingu stúdentsprófsins mun ekki skila sér í betri þjónustu við nemendur, bættu aðgengi að námi eða fjölbreyttari námsframboði eins og lofað var og alltaf hefur verið talað um í tengslum við styttinguna.

Oddný endar greininguna á þessum orðum:

Forsætisráðherra sagði í gær að þegar að ríkisstjórnin væri búin að lækka virðisaukaskattinn þá væri almennaþrepið hér orðið það lægsta á Norðurlöndunum. Áður en við segjum Jibbí! og Húrra! skulum við fá svör við því hvort þjónustig velferðarþjónustunnar verði þá líka það lægsta á Norðurlöndunum.