Róttæk, félagslega þenkjandi og stórhuga húsnæðisstefna

Að minnsta kosti 6250 íbúðir verða byggðar í Reykjavíkurborg á næstu 5 árum. Þetta kemur fram í drögum að húsnæðisáætlun borgarinnar, sem kynnt var í ráðhúsinu í gær. Áhersla verður á að auka framboð lítilla og meðalstórra íbúða.
Byggingarsvæði fyrir yfir 2.500 íbúðir eru komin á framkvæmdastig í borginni og fjölgar þeim hratt. Byggingarsvæði fyrir yfir 2.500 íbúðir að auki liggja fyrir í staðfestu skipulagi. Megináhersla í húsnæðisáætlun borgarinnar er á samstarf við byggingarfélög sem reisa íbúðir án hagnaðarsjónarmiða. Alls eru um 3.700 staðfest áform um íbúðir, fyrir stúdenta, eldri borgara, fjölskyldur með lægri og millitekjur, og búsetu.
„Þessi húsnæðismarkmið eru róttæk, félagslega þenkjandi og stórhuga,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á fundinum. Á öllum nýjum þróunarsvæðum hefur verið samið um að hlutfall leigu- og búseturéttaríbúða á hverju uppbyggingarsvæði verði 20-25%. Jafnframt hefur verið samið um að Félagsbústaðir hafi kauprétt að um 5% af öllum nýjum íbúðum. Hvort tveggja til að tryggja félagslega blöndun um alla borg.
Samkvæmt áætlunum Reykjavíkurborgar er stefnt að því að hafin verði uppbygging á um 7.000 nýjum íbúðum fram til ársloka 2020. Þar af er gert ráð fyrir vel yfir 3.000 íbúðum á vegum leigu- og húsæðisfélaga.