Í vikulokin

Við í þingflokki Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands á Alþingi létum til okkar taka dagana 21. apríl – 1. maí 2017 eins og við var að búast.
Eftir ágætis páskafrí þar sem batteríin voru hlaðin fyrir baráttuna framundan fyrir jöfnuði og réttlæti, mætti ég á Morgunvaktina á Rás 1 föstudaginn 21. maí. Tilefnið var 100 daga líftími ríkisstjórnarinnar sem er ríkisstjórn borstinna vona þeirra kjósenda sem töldu sig vera að kjósa umbætur og kerfisbreytingar og fyrir okkur hin ríkisstjórn glataðra tækifæra til að bæta heilbrigðisþjónustu, samgöngur og skóla. Hér er viðtalið sem byrjar eftir fréttir kl. 7:30.
Á föstudagskvöldið var Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar í þættinum Vikan með Gísla Marteini. Hann var þar góður að vanda og glæsilegur hvort sem var í sófanum í röndótta bolnum eða í gamla myndbandinu sem sýnt var þar sem hann dansaði í bleikum búningi með hljómsveitinni Skriðjöklum. Hér er slóð á þáttinn.
Fyrsti þingfundur eftir páska hófs með óundirbúnum fyrirspurnartíma 24. apríl. Ég átti orðastað við fjármála- og efnahagsráðherra um gagnrýni fjármálaráðs á fjármálastefnuna og fjármáláætlunina. Ráðherrann svaraði engu og þóttist ekki geta tekið tillit til athugasemdanna sem er rangt, því tækifærið var við aðra umræðu um fjármálastefnuna sem hann nýtti sér ekki.
Við Guðjón S. Brjánsson tókum þátt í sérstökum umræðum um þá alvarlegu stöðu sem blasir við vegna kennaraskorts ef ekkert verður að gert. Logi er fyrsti flutningsmaður að þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin bregðist við vandanum strax. Hér er slóð á ræðuna mína og hér er ræða Guðjóns.
Þar sem að Logi var í Berlín á fundi með jafnaðarmönnum héldum við Guðjón áfram í næstu sérstöku umræðu um húnsæðismálin og þann bráðavanda sem þar ríkir. Við höfum líka lagt fram tillögu á þinginu um lausn í þeim málum. Hér er ræða Guðjóns um húsnæðisvandann og hér er ræða mín.
Guðjón tók síðar þann sama dag þátt í umræðu um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum og um eflingu verk- og iðnnáms.
Í störfum þingsins á þriðjudaginn ræddi ég um skort á auðlindastefnu og kallaði einnig eftir umhverfisstefnu ríkisstjórnarinnar. Hér er ræðan en auk þess hef ég óskað eftir sérstakri umræðu við forsætisráðherra um málið.
Logi spurði heilbrigðisráðherra út í einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og hvort ráðherrann væri ekki sammála þeirri leið sem við í Samfylkingunni höfum gert tillögu að og er nú í vinnslu í velferðarnefnd. Hér er samtal þeirra og loðin svör ráðherrans frá því á miðvikudaginn síðasta.
Félagsmálaráðherrann mælti fyrir frumvarpi um jafnlaunavottun. Umræðunni er ekki enn lokið en hér er andsvar mitt við ræðu ráðherrans.
Vikunni lauk með nefndardögum þar sem fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var rædd. Samfylkingin hefur gagnrýnt þá áætlun harðlega einkum fyrir tillögu að niðurskurði í heilbrigðiskerfinu, skort á fjármunum til viðhalds vega, samgöngubóta og til skólastarfs . Ýmislegt annað er við hana að athuga sem við munum koma á framfæri við aðra umræðu sem verður seinna í þessum mánuði.
Við tókum þátt í hátíðarhöldum á baráttudegi verkalýðsins 1. maí. Guðjón var á Vesturlandi, ég á Suðurnesjum og Logi bæði í Reykjavík og í Hafnarfirði. Logi hélt mjög góða ræðu í tilefni dagsins sem ég hvet ykkur til að lesa hér.
Handan við hornið er spennandi vika með krefjandi verkefnum fyrir jafnaðarmenn um allt land.
Saman erum við sterk og hugsjónir okkar gefa kraft til úthalds og samstöðu.
Góðar stundir! Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar