Í vikulokin 2. til 5. maí
Við í þingflokki Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands á Alþingi létum til okkar taka dagana 2. maí – 5. maí 2017 eins og við var að búast.
Við minntumst þess að þann 2. maí varð EES samningurinn 25 ára. EES-samningurinn er umfangsmesti og mikilvægasti milliríkjasamningur, sem íslenska lýðveldið hefur gert. Með gildistöku hans 1994 stækkaði heimamarkaður okkar úr 300 þúsund manns í 300 milljónir, og síðar í 500 milljónir með stækkun Evrópusambandsins. Með samningnum erum við fullgildir aðilar að innri markaði ESB – stærsta fríverslunarmarkaði í heiminum. Samningurinn var undirbúinn af ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988-1991, þar sem að Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra og Svavar Gestsson var menntamálaráðherra. Mikið mæddi á þessum ráðuneytum við undirbúning samningsins og á fleirum sem eiga þakkir skildar.
Guðjón S. Brjánsson var upphafsmaður að sérstökum umræðum um lyfjanotkun Íslendinga en við eigum heimsmet í notkun á bæði örvandi lyfjum og róandi. Guðjón spurði hvað væri til ráða og heilbrigðisráðherra ásamt fulltrúum allra þingflokka tóku þátt í umræðunum sem hlusta á má hér. Fjölmiðlar fjölluðu um umræðurnar og m.a. var ágæt umfjöllun í fréttatíma Stöðvar2 og á visi.is sem sjá má hér.
Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á þriðjudaginn átti ég orðastað við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hvað væri því til fyrirstöðu að bjóða út þorskkvóta á næsta fiskveiðiári eða hvenær sem hann yrði lagður til að kjörtímabilinu. Þorsksstofninn hefur ekki mælst stærri síðan að mælingar hófust og því viðbúið að viðbótarkvóta verði úthlutað og ef ekki með útboði þá fá þeir sem eiga kvóta fyrir viðbótina á silfurfati. Ráðherra Viðreisnar vill ekki útboð því það gæti truflað sáttargjörð um fiskveiðistjórnun skilst mér. Hér eru samskipi okkar og hér er umfjöllun um þau sem birt voru á visi.is.
Ég spurði þingflokksformann Viðreisnar að því sama og hvort henni litist ekki vel á að tekjurnar sem fengjust við útboðið rynnu til heilbrigðismála, en hún var ekki á því. Hér eru samskipti okkar og hér er frétt sem birtist á stundinni um þau.
Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á fimmtudaginn átti Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar orðastað við fjármála- og efnahagsráðherra um að ójöfnuður væri að aukast, m.a. sýndi hærri gini-stuðull það í mælingum Hagstofunnar. Logi vildi vita til hvaða ráðstafana ráðherrann vildi grípa til að stöðva þessa þróun. Fátt var um svör eins og sjá má hér.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flutti skýrslu um Matvælastofnun sem kallað var eftir vegna Brúneggjamálsins. Við Logi tókum þátt í umræðunni og hér er ræða Loga og mín er hér.
Sérstakar umræður voru um greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Við Logi tókum þátt og minntum á þá stefnu Samfylkingarinnar að heilbrigðisþjónustan hér á landi verði gjaldfrjáls. Hér er ræða Loga, hér er ræðan mín. Umfjöllun um þetta má finna á vísir.is.
Fréttir bárust af því á fimmtudagsmorguninn að til stæði að renna Fjölbrautaskólanum í Ármúla undir Tækniskólann sem er einkaskóli. Þetta átti að gera án allrar umræðu í þinginu. Við brugðumst illa við þessu undir liðnum Fundarstjórn forseta í þinginu, þar sem hver og einn má tala tvisvar í eina mínútu í senn. Hér, hér, hér og hér er það sem við Logi höfðum að segja um málið. Við vorum öskureið.
Á fimmtudaginn flutti utanríkisráðherra skýrslu sína um utanríkismálin. Logi tók þátt í þeirri umræðu og hér má hlusta á hana og snörp orðaskipti Loga og ráðherrans um svik Sjálfstæðismanna um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður Íslands við ESB.
Snemma á fimmtudagsmorgun var Logi í stórgóðu útvarpsviðtali á Harmageddon sem hlusta má á hér.
Í næstuviku verður aðeins einn þingfundur því tíminn verður nýttur fyrir nefndarstörf og fundi þingflokka.
Handan við hornið er spennandi vika með krefjandi verkefnum fyrir okkur í Samfylkingunni út um allt land.
Góðar stundir! Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar