Í vikulokin 8. til 14. maí
Við í þingflokki Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands á Alþingi létum til okkar taka dagana 8. maí – 14. maí 2017 eins og við var að búast.
Vikan byrjaði á þingflokksfundadegi og við í þingflokki Samfylkingarinnar fengum til okkar fulltrúa í málefnahópnum okkar um efnahags- og fjármál til að gefa okkur endurgjöf á umsögn Guðjóns um málefni sem tilheyra velferðarnefnd þingsins og umsögn Loga um málefni sem tilheyra atvinnuveganefnd þingsins. Umsagnirnar voru sendar fjárlaganefnd sem mun klára vinnu sína við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í þessari viku. Hér er umsögn um velferðarmálin og hér er umsögn um atvinnumálin.
Aðeins einn þingfundadagur var í vikunni og hann var á þriðjudaginn en vikunni lauk með tveimur nefndardögum. Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar spurði fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma um fjármögnun framhaldsskólana og svik á loforðinu sem gefið var og samþykkt í síðustu fjármálaáætlun af þáverandi ríkisstjórn um að ekki yrði dregið úr fjárframlögum til framhaldsskólakerfisins. Námstíminn til stúdentsprófs hefur verið styttur og þeir fjármunir sem við það sparast áttu að ganga til framhaldsskólanna til hagsbóta fyrir nemendur um allt land en núverandi ríkisstjórn svíkur það með sinni fjármálaáætlun. Hér má sjá spurningar Loga og svör ráðherrans sem ekki eru nú til að hrópa húrra fyrir.
Formaður atvinnuveganefndar lagði til að þar sem að búið væri að stofna sáttanefnd (enn eina) um gjaldtöku fyrir sjávarauðlindina okkar, að þingmál sem væru í vinnslu í nefndinni yrðu dregin til baka. Við urðum auðvitað öskureið og mótmæltum þessari nýju hugmynd sem gefur framkvæmdarvaldinu aukin völd. Ráðherrar stofna nefndir og þingmenn draga sín mál til baka. Auðvitað koma það ekki til greina af okkar hálfu enda annað málið mál Samfylkingarinnar um útboð á viðbótaraflaheimildum fyrir næsta fiskveiðiár. Hér eru ræður okkar um þetta, mínúta hver Logi, Guðjón og Oddný.
Tvær sérstakar umræður voru á þriðjudaginn. Sú fyrri var um innviðauppbyggingu á landsbyggðinni og Logi og Guðjón voru með fínar ræður í þeirri umræðu eins og sjá má hér og hér. Hin var um stöðu framhaldsskólans og ég tók þátt í henni með tveimur stuttum ræðum sem eru hér og hér.
Við tókum þátt í umræðuþáttum helgarinnar. Logi var í Vikulokunum á Rás1 sem má hlusta á hér. Ég var í Víglínunni á Stöð2 og hér má horfa á hann.
Í þessum vikulegu pistlum hef ég sagt frá þingstörfunum og viðtalsþáttum sem við höfum tekið þátt í en við gerum svo margt annað. Í síðunstu viku var t.d. aðalfundur kjördæmisráðs Norðvesturkjördæmis. Þann fjölmenna fund sóttu m.a. Guðjón, Logi og Heiða Björg Hilmisdóttir varaformaður Samfylkingarinnar. Hér er slóð þar sem finna má ályktun sem samþykkt var á fundinum. Á mánudaginn var Samfylkingarfélagið í Reykjavík með fund sem bar yfirskriftina Ójöfnuður og ungafólkið. Þar kynnti Arndís Vilhjálmsdóttir, doktorsnemi í sálfræði við Háskóla Íslands, helstu niðurstöður rannsóknar sinnar um málefnið. Guðjón var í pallborði og tók þátt í umræðum að lokinni kynningunni. Á miðvikudaginn hitti ég öldungaráð Suðurnesja ásamt þingmönnum í Suðurkjördæmi þar sem farið var yfir slæma stöðu aldraðra á svæðinu sem sýnd er á mynd í þessari áhugaverðu skýrslu á blaðsíðu 45.
Ýmsar áskoranir og launsnir í anda jafnaðarstefnunar bíða Samfylkingarfólks út um allt land á næstu dögum. Hugsjón okkar um jöfnuð og réttlæti gefur okkur kraft fyrir úthald og samstöðu.
Baráttukveðjur, Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Ísland