Afhjúpandi áætlun
Aðfaranótt 1. júní var fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára samþykkt með einu atkvæði, 32-31. Áætlunin hefur fengið furðu litla athygli miðað við hversu áhrif hennar verða mikil fyrir íslenskt samfélag ef hún nær fram að ganga. Sérstaklega þarf að hafa áhyggjur af heilbrigðismálum, menntamálum, málefnum öryrkja og fatlaðs fólks, húsnæðis- og fjölskyldumálum ásamt samgöngum og löggæslu. Þetta eru einmitt málin sem rætt var mikið um í kosningabaráttunni og allir flokkar gáfu loforð um að raða framar. En auk þessa eru helstu jöfnunartækin veikt; barnabætur og húsnæðisbætur og áætlunin mun leiða til aukins ójafnaðar. Þetta gengur allt gegn stefnu jafnaðarmanna. Þess vegna lagði Samfylkingin fram breytingartillögur við fyrrgreind málasvið áætlunarinnar svo og við þróunarsamvinnu.
Við gerðum einnig tillögur á tekjuhliðinni um réttlátara skattkerfi, sem spornar gegn auðsöfnun á fárra hendur og gefur sanngjarnari tekjur af auðlindum þjóðarinnar. Tillögur okkar eru raunhæfar og hefðu stuðlað að auknum jöfnuði, uppbyggingu innviða og betra velferðarkerfi ef þær hefðu verið samþykktar. En þær voru felldar af hægristjórninni eins og við var að búast, enda hafa þau þegar svikið nær allt sem þau lofuðu fyrir kosningar.
Ríkisfjármálin hafa stýrandi áhrif á velferð landsmanna. Ekki er að vænta endurreisnar heilbrigðiskerfisins í valdatíð núverandi ríkisstjórnar þó um 90 þúsund manns hafi krafist þess með undirskriftum. Jafnrétti til náms á einnig undir högg að sækja vegna sveltistefnu bæði á framhaldsskóla- og háskólastiginu. Það sama á við um umferðaröryggi á holóttum og þröngum vegum. Stefnuleysi og skortur á uppbyggingu hjúkrunarheimila hefur ekki aðeins slæm áhrif á fólkið sem þarf á þjónustunni að halda, heldur einnig á daglegt líf þeirra sem hlúa að öldruðum fjölskyldumeðlimum sem bíða mánuðum saman eftir plássi á hjúkrunarheimilum.
Fjármálaáætlunin ríkisstjórnarinnar varðar alla landsmenn og afhjúpar stjórnarflokkana þrjá, betur en nokkuð annað, sem hægriflokka undir sterkum áhrifum nýfrjálshyggju.
Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar