Rekstur Reykjavíkurborgar fram úr björtustu vonum - skuldir halda áfram að lækka

Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu sex mánuði ársins var jákvæð um ríflega 3,6 milljarða króna. Niðurstaðan er 2,5 milljörðum króna betri en gert var ráð fyrir. Skuldir borgarinnar hafa lækkað um 41 milljarð á kjörtímabilinu.

Fjárfest í velferð

,,Þetta gerir okkur kleift að bæta við fjárframlögum í skólamál, velferðar- og húsnæðismál og endurnýjun innviða,” segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. ,,Það höfum við gert frá því viðsnúningur varð í rekstrinum um mitt síðasta ár og munum halda því áfram í næstu fjárhagsáætlun. Sterkari fjárhagsstaða gerir þetta kleift og skólar, velferð, húsnæðismál og innvirðir eru í forgangi hjá meirihluta borgarstjórnar.”

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, var jákvæð um tæpa 18,6 milljarða króna en áætlanir gerðu ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 7,8 milljarða króna. Rekstrarniðurstaðan er því 10,8 milljörðum króna betri en gert var ráð fyrir.

Skuldir lækkað um 35 milljónir á dag

Skuldir Reykjavíkurborgar hafa lækkað jafnt og þétt frá árinu 2011 og í tíð núverandi borgarstjórnarmeirihluta hafa skuldirnar lækkað um 41 milljarð. Meirihlutinn í borginni hefur starfað í 1177 daga og hafa skuldir borgarinnar því lækkað um 35 milljónir á dag síðan hann tók við.

skuldirrvkborgar