Tillaga um kvöld- og næturstrætó samþykkt - „Þetta snýst um jöfnuð“
Á stjórnarfundi Strætó í dag var samþykkt að framlengja aksturstíma strætisvagna til kl 01 á kvöldin og innleiða næturakstur um helgar. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Strætó og varaformaður Samfylkingarinnar, lagði fram tillöguna fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Hún segir að framlengdur aksturstími snúist um jöfnuð – allir eigi að hafa tækifæri til að koma sér á milli staða.
„Á stjórnarfundi Strætó áðan var niðurstaðan að við viljum stórbæta þjónustu Strætó á komandi ári. Engin sumaráætlun, akstur til kl 1 á kvöldin, næturstrætó um helgar, leið 6 á 10 mínútna tíðni á álagstíma og bætt leiðakerfi innan sveitarfélaganna,“ segir Heiða Björg í færslu á Facebook. „Ég er gríðarlega ánægð með þennan áfanga og vona að við sveitarfélög sameinumst um þetta stóra skref í bættum almenningssamgöngum. Reykjavík mun gera það – áfram Strætó!“
Rökin fyrir tillögu um lengdan aksturstíma Strætó eru m.a. þau að margir sem vinna vaktavinnu eða á óhefðbundnum tímum geta ekki nýtt sér þjónustu fyrirtækisins vegna þess að allir vagnar keyra sínar síðustu ferðir fyrir miðnætti. Þá eigi það ekki að vera forréttindi þeirra sem keyra eigin bíl eða búa nálægt miðbænum að geta komið sér heim af kvöldskemmtun. „Þetta snýst einfaldlega um jöfnuð,“ segir Heiða Björg. Allir eigi að hafa tækifæri til að koma sér milli staða.
Ekki er allur björninn unninn því þessar áherslur fara inn í forsendur fjármálaáætlunar sem lögð verður fyrir stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þann 4. september næstkomandi. Það er því undir fulltrúum sveitarfélaganna í stjórn SSH komið hvort af þessu verði eða ekki.
Ungir jafnaðarmenn fagna
Ungir jafnaðarmenn hafa barist fyrir því að Strætó keyri lengur á kvöldin. Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, formaður Ungra jafnaðarmanna, fagnar samþykkt stjórnar Strætó um framlengdan kvöldakstur. „Að efla almenningssamgöngur er mikilvægt út frá sjónarmiði umhverfisverndar, lýðheilsu, borgarskipulags og jöfnuðar. Í dag var stigið mikilvægt skref í að gera Strætó enn raunhæfari og fýsilegri kost sem ferðamáta en áður,“ segir Þórarinn og skorar á sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að klára málið: „Reykjavík og stjórn Strætó hafa stigið skrefið, og nú skiptir sköpum að bæjarstjórnir nágrannasveitarfélaganna hafi þor til að láta þetta verða að veruleika.“