Fjárlagafrumvarp: áframhaldandi niðurskurður í heilbrigðisþjónustu þvert á fögur loforð
„Mér finnst það vera aumingjaskapur að draga saman þjónustu við okkar veikasta fólk í góðærinu,“ segir Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni. Þar gagnrýnir hún harðlega fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem kynnt var í dag. Oddný bendir á að framlög til sérhæfðrar sjúkrahússþjónustu séu skorin niður um samtals 1.288 milljónir króna og varar við því að biðlistar muni lengjast.
Hneyksli og til skammar
„Fyrstu viðbrögð við fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018: Þetta er hneyksli og til skammar,“ segir Oddný. „Eftir mörg mögur ár og niðurskurð í heilbrigðisþjónustu er enn gert ráð fyrir niðurskurði þvert á ákall þjóðarinnar, fögur kosningaloforð og blússandi góðæri.“
Krafist er samtals 1.288 milljóna króna niðurskurðar til sérhæfðrar sjúkrahússþjónustu. Þar ef er óskilgreindur niðurskurður 388 milljónir og viðhald er skorið niður um 600 milljónir. Þá á að verja 300 milljónum minna í tækjakaup á næsta ári.
„Hér eru fréttir fyrir ríku strákana og stelpurnar í ríkisstjórninni: Fólk getur ekki beðið með að verða veikt á meðan að þið byggið sjúkrahús og venjulegt fólk hefur ekki efni á því að borga sig fram fyrir röðina hjá einkareknu heilbrigðisþjónustunni eða stokkið til útlanda í liðskipti,“ segir Oddný að lokum.