Forgangsmál að tryggja Mary og Haniye ríkisborgararétt fyrir kosningar
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segist ætla að leggja kapp á að frumvarp um ríkisborgararétt fyrir flóttastúlkurnar Mary or Haniye verði samþykkt fyrir kosningar.
Frumvarpið var lagt fram í upphafi þings í síðustu viku og felur í sér að Mary og Haniye, flóttastúlkur sem senda á úr landi, fái ríkisborgararétt hér á landi ásamt fjölskyldum þeirra. Í greinargerð með frumvarpinu segir að þó að frumvarp þetta lúti að tveimur börnum og foreldrum þeirra, „er inntakinu ekki síður ætlað til að senda stjórnvöldum skýr skilaboð um að löggjafinn ætlist til þess að réttindi barna séu virt í hvívetna við töku stjórnvaldsákvarðana þar sem hagsmunir þeirra eru í húfi.“
Logi hefur áður sagt að það sé „ómannúðlegt“ að taka þessum stelpum ekki opnum örmum, „veita þeim öryggi, gera þeim kleift að blómstra og auðga samfélagið okkar.“ Það verði að gera kröfu um það í siðmenntuðu landi að sérstaklega skuli horft til barna sem hingað koma á flótta.