Áfangasigur fyrir Haniye og Mary

„Það er ömurleg staða að þurfa að semja um þinglok bak við lokaðar dyr, þar sem öryggi og velferð barna var notað sem skiptimynt,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, um samkomulag sem náðist milli formanna fimm flokka á Alþingi um þinglok. Samkvæmt samkomulaginu, sem allir flokkar nema Samfylkingin og Píratar eru aðilar að, verður þingi slitið á morgun.

Áfangasigur í baráttunni fyrir réttindum barna á flótta

Logi segir að í umræðum formanna flokkanna hafi Samfylkingin lagt áherslu á mannúð í útlendingamálum, að Haniye og Mary fengju að vera áfram á Íslandi og að tekið yrði meira tillit til sjónarmiða barna við afgreiðslu hælisumsókna. Þar vannst áfangasigur. „Það náðist að berja fram breytingar til bráðabirgða sem munu vonandi bjarga þeim og nokkrum öðrum börnum,“ segir Logi. „Það sorglega er að ákvæðið er ekki varanlegt og fjarar út skömmu eftir kosningar. Því er brýnt að í næstu kosningum veljist flokkar sem byggja stefnu sína á mannúð og munu bæta lögin strax á nýju kjörtímabili.“

Annað áherslumál Samfylkingarinnar í viðræðunum var að Alþingi myndi samþykkja nýtt breytingarákvæði sem gerði þjóðinni kleift að breyta stjórnarskránni á næsta kjörtímabili. „Þar höfðum við og Píratar því miður ekki erindi sem erfiði en við berjumst áfram,“ segir Logi.