Samúð og samkennd - ræða Loga

Ræða Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 13. september 2017. 

 

Frú forseti, kæru landsmenn.

Einhvern tímann hefði það þótt skynsamlegt, þegar forsætisráðherra semur stefnuræðu á sama tíma og fjármálaráðherra skrifar fjárlagafrumvarp, að þeir bæru örlítið saman bækur sínar.
Það virðist þessum herramönnum þó ekki hafa dottið í hug. Þetta samskiptaleysi þeirra frænda er pínlegt.
Á meðan hæstvirtur forsætisráðherra talar um nauðsyn á góðu heilbrigðiskerfi og mikilvægi menntunar, birtir hæstvirtur fjármálaráðherra metnaðarlítið frumvarp, þar sem hvorugum málaflokknum eru sýndur skilningur.

Þá var ræðan dapurlegt framlag inn í komandi kjaraviðræður. Stéttarfélög og félagsmenn eru skömmuð fyrir að krefjast kjarabóta. Nær væri að forsætisráðherra lærði af hinum Norðurlöndunum: Vinnumarkaðslíkan þeirra byggir ekki eingöngu á efnahagslegum stöðugleika; heldur líka félagslegum. Það mætti ríkisstjórnin að fara að skilja. Á hinum Norðurlöndunum er fjárfesting hins opinbera í velferðar- og menntakerfinu ásamt umbótum í atvinnulífinu stór hluti af sátt á vinnumarkaði: Raunverulegar lausnir í húsnæðismálum, auknar vaxtabætur, ríkari stuðningur við barnafjölskyldur hefðu liðkað fyrir, en í nýjum fjárlögum er þetta því miður allt skorið við nögl.

Þá er ömurlegt að vilji almennings um uppbyggingu á opinberu heilbrigðiskerfi skuli fullkomlega hunsaður. Sú aukning sem þó er boðuð mun lenda í vasa einkaaðila, og grafa enn frekar undan opinberri heilbrigðisþjónustu.

Hæstvirtur forsætisráðherra talar um mikilvægi öldrunarþjónustu.
Veit hann virkilega ekki að hún er vanfjármögnuð um marga milljarða. Sá kostnaður er m.a. borinn uppi af nokkrum sveitarfélögum sem þurfa að borga hallann með útsvarstekjum, sem ætlaðar voru í aðra þjónustu. Þetta rýrir samkeppnishæfni þeirra og er óboðlegt.

Hæstvirtur forsætisráðherra bítur þó höfuðið af skömminni þegar hann fullyrðir í ræðunni, að það skipti engu máli að skattbyrði hækki mest á lægstu launin. Almenn velsæld hafi nefnilega aukist svo mikið.
Skítt með þótt bilið milli þeirra hæst og lægst launuðu breikki.

Það væri kannski ágætis hugmynd að hæstvirtur forsætisráðherra bankaði uppá hjá nokkur þúsund börnum sem líða skort, fólki sem hrekst um á ótryggum húsnæðismarkaði, öryrkjum sem lifa margir á hungur lús eða öldruðum í krappri stöðu. Hann gæti kannski hjálpað þeim að finna, og tína upp brauðmolana, sem falla af veisluborðinu, sem aldrei fyrr.

Við erum ríkt land og getum vel boðið öllum mannsæmandi líf. Það verður aðeins gert með klassískum aðferðum sem gert hafa Norðurlöndin að fyrirmynd annara ríkja: Með því að tryggja öllum öryggi, velferð og menntun og ekki síst skipta gæðum og byrðum réttlátar.

Frú forseti. Það er mikilvægt að ríða þétt öryggisnet sem grípur fólk ef það af einhverjum ástæðum fellur milli skips og bryggju og tryggir þeim öryggi og skjól.
En fyrst og fremst eigum að skapa samfélag sem gefur öllum tækifæri til að eflast, þroska hæfileika sína og standa á eigin fótum. Það er því skammsýni að gefa ekki eldra fólki tækifæri á að vinna, án þess að megnið af þeim launum skerðist. Og það er óviturlegt að bæta ekki kjör öryrkja, skerða húsnæðisstuðning og draga úr barnabótum.

Vissulega er alltaf mikilvægt hlutverk stjórnvalda að bregðast við óvæntum aðstæðum og leiða þær sem best til lykta. En við megum þó ekki festast algjörlega í stjórnmálum sem fyrst og fremst snúast um viðbragð. Hvort sem um er að ræða sveiflur á gengi örmyntar eða offramleiðslu á kindakjöti.
Við verðum að vera nógu skynsöm til að horfa til framtíðar og nógu djörf til að fjárfesta í henni.

Þær breytingar sem eru að verða á samfélagi okkar, samfara aukinni tölvu- tækni og sjálfvirknivæðingu, beinlínis krefjast þess. Atvinnulíf framtíðarinnar mun í auknu mæli þurfa að byggjast á þróun og nýsköpun og þar þurfum við að reiða okkur á eiginleika eins og sköpun, innsæi og frumkvæði.
Aukin framleiðni og verðmætasköpun eru forsenda þess að við getum tekist á við breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar, skapað samfélag þar sem allir eru virkir þátttakendur og staðist samkeppni við aðrar þjóðir.

Í dag getur ungt fólk valið sér allan allan heiminn að vettvangi og við verðum að fjárfesta í framtíð þess ef við viljum vera í fremstu röð. Svarið við þessari áskorun er menntun, menntun og aftur menntun.

Skólastarf þarf að taka mið af þessari nýju framtíð. Menntun verður hluti af veruleika einstaklingsins, með einum eða öðrum hætti, alla ævi. Við eigum að leggja enn meiri áherslu á tækni- og skapandi greinar; líka menningu og listir. Þær veita manninum ekki bara ánægju, heldur skipa stöðugt stærri sess í atvinnulífi þjóðarinnar og þroska frumlega og skaspandi hugsun. Sókn í menntamálum mun vissulega kosta okkur mikla peninga í upphafi en skila sér margfalt, þegar lengra líður.

Frú forseti. Við höfum vissulega náð góðum árangri í jafnréttismálum, en eigum þó enn langt í land.
Áskorunin felst ekki síst í því að breyta óskrifuðum reglum og gildismati samfélagsins. Þau eiga sér rætur í margra alda kerfi sem stjórnað hefur verið af okkur körlum.
Á síðustu árum hafa fleiri og fleiri rannsóknir afhjúpað hvernig þáttur kvenna var beinlínis falinn, langt fram á okkar daga. Við erum enn að glíma við óútskýrðan kynbundin launamun og hefðbundin kvennastörf eru oftar verðmetin ver en dæmigerð karlastörf, nægir þar að nefna kennslu og umönnun.

Við þekkjum líka öll dæmi af bryggjukallinum sem var búinn að eyðileggja skrokkinn af púli um miðjan aldur. Erfiðisstörf samtímans eru iðulega unnin af konum. Góð dæmi eru fiskvinnslukonur og sjúkraliða.

Við verðum að horfa sérstaklega á slíkar staðreyndir þegar samið er um kaup og kjör næstu misseri.

Kæru þingmenn
Við trúum því að allir menn séu fæddir jafnir og með víðtæk mannréttindi.
En það er þó grundvallarmunur á því hvaða merkingu við leggjum í þetta og hvaða leiðir stjórnmálaflokkar vilja fara til að tryggja þetta. Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa gefið Sjálfstæðisflokknum allt of mikil völd gegnum tíðina. Í krafti 30% fylgis hefur hann setið í allt of mörgum ríkisstjórnum; þrátt fyrir að 70% þjóðarinnar hugnist hvorki viðhorf hans né stefna.

Það eru gömul og ný sannindi að bátur kemst hraðar og lengra ef fleiri leggjast á árar og þess vegna er brýnt að flokkar sem aðhyllast félagshyggju og mikla samhjálp nái vopnum sínum.
Við verðum að skilgreina mikilvægustu snertifletina, vinna þéttar saman og þá, verðum við raunverulegur valkostur, fyrr en varir. Um stór mál getum við alltaf sameinast, þótt okkur greini á um einstakar útfærslur: Ég nefni aukin jöfnuð, sterkt opinbert mennta- og heilbrigðiskerfi, sanngjarnt afgjald af auðlindum og nýja stjórnarskrá. Ef okkur auðnast þetta ekki höldum við áfram að vera á víxl, fylgitungl Sjálfstæðisflokksins, með vel þekktum afleiðingum, bæði fyrir flokkana en sérstaklega fyrir samfélagið.

Kæru landsmenn. Við höfum ekki alltaf verið vel stæð þjóð; raunar aðeins í skamman tíma. Fyrir rúmum 100 árum vorum við meðal fátækustu þjóða í vestur Evrópu. Í upphafi Brekkukotsannáls, segir Álfgrímur, með leyfi forseta:

„Í það mund sem ég var að verða til, þá var þar í kotinu mikil örtröð af því fólki sem nú á dögum heitir flóttamenn; það er að flýa land; það leggur á stað með tárum úr heimkynnum sínum og ættbygð af því svo illa er að því búið heimafyrir að börn þess ná ekki þroska heldur deya.“
Tilvitnun líkur. Þessi orð eru vissulega upp úr skáldsögu en lýsa þó nöprum veruleika þess tíma á Íslandi.

Og þau nísta ekki síst inn að beini, vegna þess að það er svo stutt síðan forfeður okkar, jafnvel afar og ömmur, gátu almennt ekki tryggt börnum sínum öryggi og mikil óvissa var um hvort þau kæmust á legg.

Þjóð sem bjó við slíkar aðstæður fyrir örfáum áratugum, hlýtur og verður að geta sett sig í spor annarra. Stutt og sýnt þeim kærleik, sem nú búa við svipaðar og jafnvel verri stöðu.

Aðstoð við einn hóp í erfiðri stöðu er ekki á kostnað annars sem á bágt. Við erum rík þjóð og höfum vel efni á því að gera vel við þá báða, ef við aðeins deilum gæðunum jafnar.

Góðir landsmenn. Þegar öllu er á botninn hvolft er samúð og samkennd líklega það fallegasta sem mannskepnunni er gefið.