Milljarður á ári í stórsókn gegn ofbeldi

Samfylkingin ætlar að ráðast í stórsókn gegn ofbeldi. Við höfum ákveðið að setja einn milljarð króna árlega inn í þetta verkefni.

Hvað ætlum við að gera?

1. Efla löggæslu í landinu en það þýðir að fjölga lögregluþjónum og rannsakendum stórlega.

Við ætlum í fyrsta lagi að efla löggæslu í landinu en það þýðir að fjölga lögregluþjónum og rannsakendum stórlega. Á höfuðborgarsvæðinu einu er áætlað að vanti eitt hundrað löggur svo vel eigi að vera. Skortur á faglærðum lögregluþjónum er allsstaðar um landið og kemur það auðvitað niður á því starfi sem þar er unnið. Þetta kemur harkalega niður á meðferð kynferðis-, heimilis- og annarra ofbeldisbrota enda bitnar þetta á rannsóknum og meðferð mála. Það gengur ekki að brotaþolar sem og gerendur þurfi að bíða í 2 – 3 ár eftir niðurstöðu mála. Þetta fælir brotaþola frá því að kæra og rannsóknir verða einfaldlega ekki eins góðar.

2. Markviss vinna er varðar forvarnir og fræðslu

Í öðru lagi ætlum við að fara í markvissa vinnu er varðar forvarnir og fræðslu. Ekki enn eitt átakið sem lifir í mánuð heldur fókuserað starf sem sett er inn í allar menntastofnanir, öll skólastigin. Þar eru hvort tveggja gerendur og brotaþolar í nútíð og framtíð sem þurfa að læra það frá fyrsta degi að ofbeldi drepur. Langtímaverkefni er málið – setja þetta inn í alla samfélagsfræðslu og það með markvissum hætti.

3. Samræma móttöku þolenda kynferðis og heimilisofbeldis um allt land.

Í þriðja lagi verður farið í átak til að samræma móttöku þolenda kynferðis og heimilisofbeldis um allt land. Neyðarmóttaka Landspítala er sífellt í þróun og að bæta þjónustu sína en betur má ef duga skal. Það þarf að samræma móttöku og meðferð mála um allt land og á sumum stöðum erum við áratugum á eftir þegar kemur að utanumhaldi þessara mála.