„Er forsvaranlegt að námsmenn lifi á 177 þúsund krónum?“

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á bágum kjörum námsmanna í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Beindi hann fyrirspurninni till Lilju Daggar Alferðsdóttur, menntamálaráðherra, og krafði hana svara um það hvort námsmenn megi vænta bættra kjara í væntanlegum úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Lilja Dögg hefur enn ekki skipað nýja stjórn yfir Lánasjóðinn. Lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands hefur bent á að mikilvægt sé að það sé gert sem fyrst svo ný stjórn geti sett Lánasjóðnum úthlutunarreglur. Í nýjum úthlutunarreglum sé tækifæri til að bæta kjör námsmanna.

Lág framfærsla og dýrtíð á leigumarkaði

Guðmundur Andri spurði menntamálaráðherra um skoðun hennar á kjörum námsmanna. „Mig langar að heyra skoðun hæstvirts menntamálaráðherra, hvort henni þyki það forsvaranlegt að námsmenn lifi á 177 þúsund krónum áður en skerðingar hefjast,“ sagði Guðmundur Andri. „Í því sambandi er vert að rifja upp að frítekjumark námsmanna hefur ekki verið hækkað síðan 2014. Í þessu samhengi er líka rétt að muna að einungis níu prósent námsmanna við HÍ fá inni á stúdentagörðum, aðrir þurfa að reiða sig á almennan leigumarkað, þar sem ríkir skelfileg dýrtíð.“

Guðmunur Andri telur Lánasjóðinn ekki þjóna hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður: „Þessi lága framfærsla og lága frítekjumark festir námsmenn í vítahring því að þeir þurfa sífellt að vinna meira fyrir sér með náminu, sem er þó full vinna, eins og við vitum. Lánasjóðurinn var hugsaður til þess að efla jöfnuð og félagslegan stöðugleika, hann átti að vera nokkurs konar jöfnunarsjóður milli þeirra sem koma frá efnuðum heimilum og hinna sem ekki hafa slíkan fjárhagslegan bakhjarl. Eins og ástatt er um þennan sjóð þjónar hann ekki því hlutverki.“

Lilja svaraði á þann veg að það væri forgangsmál ríkisstjórnarinnar að endurskoða umgjörð Lánasjóðsins og bæta kjör námsmanna. Mikilvægt sé að tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag.