Svör þingmanna Samfylkingarinnar um akstursgreiðslur

Vegna umfræðu um akstursgreiðslur til þingmanna sendi Vísir fyrirspurn á alla þingmenn. Fyrirspurnin var svohljóðandi:

Færð þú greiðslur ofan á þingfararkaup þitt?
Ef já, hvaða greiðslur eru það og hversu háar í hverju tilfelli fyrir sig?
Ert þú einn af þeim þingmönnum sem á síðasta ári fékk sérstakar akstursgreiðslur frá þinginu?
Ef já, hversu há var sú upphæð fyrir árið 2017?

Allir þingmenn Samfylkingarinnar svöruðu fyrirspurninni. Hér eru svörin.

Helga Vala Helgadóttir, Reykjavíkurkjördæmi norður
Eins og allir þingmenn fæ ég starfskostnað sem er 40 þ. f. skatt og ferðakostnað sem er 30 þ. f. skatt.

Þá fæ ég 15% álag vegna formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Varðandi ferðakostnað á síðasta ári þá fékk ég engar slíkar greiðslur.

Held þetta sé upptalið.

Ágúst Ólafur Ágústsson, Reykjavíkurkjördæmi suður
Ég þáði ekki greiðslur vegna aksturs árið 2017.

Ég hef hins vegar 5% álag á þingfararkaup þar sem ég er varaformaður fjárlaganefndar. Þá fæ ég einnig greiðslur vegna starfskostnaðar að upphæð kr. 40.000 og vegna ferðakostnaðar í kjördæmi að upphæð kr. 30.000.

Guðmundur Andri Thorsson, Suðvesturkjördæmi
Ég fæ í efniskostnað 40.000 f. skatt og ferðakostnað sem er 30.000 f. skatt. Þetta eru fastar greiðslur sem allir þingmenn fá.

Þá fæ ég 10% álag sem 1. varaformaður Allsherjar og menntamálanefndar.

Ég hef einu sinni hagnýtt mér styrk til símakaupa upp á 80 þúsund krónur, sem er sambærilegur við slíka styrki til síma- eða gleraugnakaupa hjá VR.

Ég hef engar greiðslur fengið vegna aksturs.

Oddný G. Harðardóttir, Suðurkjördæmi
Færð þú greiðslur ofan á þingfararkaup þitt?

Ef já, hvaða greiðslur eru það og hversu háar í hverju tilfelli fyrir sig?

Samkvæmt launaseðli 1. febrúar 2018:
Greiðslur ofan á mánaðarlaun:

Álag vegna þingflokksformennsku: 165.179 kr.

Starfskostnaður: 40.000 kr.

Húsnæðiskostnaður: 44.680 kr.

Ferðakostnaður: 30.000 kr.

Samtals: 279.859 kr.

Ert þú einn af þeim þingmönnum sem á síðasta ári fékk sérstakar akstursgreiðslur frá þinginu?
Ef já, hversu há var sú upphæð fyrir árið 2017?
Km. heild: 23.469 km
Akstur til og frá heimili: 17.290 km
Samtals kr: 2.471.403 kr

Logi Einarsson, Norðausturkjördæmi
Færð þú greiðslur ofan á þingfararkaup þitt?
Já.
Mánaðarlaun: 1.101.194,-

Álag fyrir formennsku stjórnmálaflokks: 550.597,-

Starfskostnaður: 40.000,-

Ferðakostnaður: 30.000,-

Húsnæðisstyrkur: 187.657,-

Aðalheimili fjölskyldunnar er á Akureyri. Þar búa kona mín og dóttir en ég þarf að halda til í Reykjavík á virkum dögum og margar helgar.

Ert þú einn af þeim þingmönnum sem á síðasta ári fékk sérstakar akstursgreiðslur frá þinginu?
Nei.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Norðausturkjördæmi
Ég er með laun í samræmi við lög um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, þ.e. kr. 1.101.194,-. Ég fæ svo eins og allir aðrir þingmenn í samræmi við þessi sömu lög greiddan starfskostnað og ferðakostnað. Þar sem ég er þingmaður úr landsbyggðakjördæmi þá fæ ég greiddan húsnæðiskostnað og þar sem ég held tvö heimili, og geri það sannarlega, fæ ég greitt álag ofan á þá greiðslu.

187 þúsund í húsnæðiskostnað.

Ég hef ekki skilað inn reikningum vegna aksturs enda eru það tilmæli fjármálaskrifstofu að við notum bílaleigubíla í lengri ferðir og fasta ferðakostnaðargreiðslan á að standa undir styttri ferðum innanbæjar.

Guðjón S. Brjánsson, Norðvesturkjördæmi
Spurningarnar voru þessar og að hluta get ég svarað þeim strax:

Færð þú greiðslur ofan á þingfararkaup þitt?
Ef já, hvaða greiðslur eru það og hversu háar í hverju tilfelli fyrir sig?

Ég sit sem 1. varaforseti þingsins og ég held að því fylgi einhver aukaleg þóknun, sennilega 15%. Sömuleiðis sit ég sem formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins en engin sérstök greiðsla fylgir því verkefni. Um aðrar reglubundnar álagsgreiðslur eða tilfallandi er ekki að ræða að mér vitandi.

Álag á þingfararkaup v. setu sem 1. varaforseti Alþingis, 15%: 165.179 kr.
Álag á húsnæðis- og dvalarkostnað 53.616 kr.
Húsnæðis- og dvalarkostnaður vegna heimanaksturs 44.680 kr.
Ferðakostnaður í kjördæmum 30.000 kr.
Starfskostnaður 40.000 kr.

Ert þú einn af þeim þingmönnum sem á síðasta ári fékk sérstakar akstursgreiðslur frá þinginu? Nei.