Samfylkingin gegn ofbeldi, áreitni og einelti

Samfylkingin hefur það í stefnu sinni að beita sér gegn hvers kyns ofbeldi og áreitni. Á landsfundi Samfylkingarinnar sem fram fór á Reykjavík Natura 2. – 3. mars samþykkti flokkurinn nýja metnaðarfulla stefnu og viðbragðsáætlun gegn einelti og áreitni. Einnig voru samþykktar uppfærðar siðareglur og verklag um móttöku og meðferð umkvartana vegna eineltis og áreitni innan flokksins.

Sérstakur dagskráliður á landsfundinum fjallaið um #metoo byltinguna og í lok þess fundar kynnti nefndin sem vann tillögurnar innan flokksins þessa nýju stefnu og verklag. Í stefnu Samfylkingarinnar gegn einelti og áreitni er því lýst að Samfylkingin skapi félagsmönnum vettvang til þess að koma umkvörtunum um ótilhlýðilega háttsemi á framfæri, taki umkvörtunum alvarlega og setji þær í formlegan, málefnalegan farveg sem leiðir til réttlátrar niðurstöðu og að kvartendum verði veittur viðeigandi stuðningur við úrvinnslu atburða.

Tekið er á móti erindum til trúnaðarnefndar með hverjum þeim hætti sem málshefjandi velur. Trúnaðarnefndin vinnur úr málum eins og kveður á um í verklaginu og kemst síðan að niðurstöðu eða kemur því í viðeigandi farveg.

Eftirfarandi niðurstöður eru mögulegar:

6.1.1. Umfjöllun lokið án viðurlaga. Ekki ástæða til viðbragða.

6.1.2. Samtal og eftir atvikum ráðgjöf til málsaðila, annars eða beggja.

6.1.3. Áminning trúnaðarnefndar.

6.1.4. Tillaga um að víkja aðila úr öllum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.

Stefnan og  verklagsreglur verða síðan skipulega kynntar fyrir öllum kjörnum fulltrúm, formönnum aðilarfélaga, fólki í trúnaðarstarfi fyrir flokkinn, sérstaklega fyrir frambjóðendum, kjörnum fulltrúum og öðrum sem gegna trúnaðarstörfum í flokknum.

Á næstu vikum mun á heimsíðu flokksins birtast nákvæmar leiðbeiningar um hvernig verklaginu verður fylgt eftir með upplýsingum um hvar einstaklingar geta komið sínum málum áleiðis.

Verklag og stefnuna má nálgast í heild sinni hér að neðan:

Stefna Samfylkingarinnar gegn einelti og áreitni

Verklag um móttöku og meðferð umkvartana á sviði eineltis og áreitni